sunnudagur, júlí 31, 2005 

y = ax + b

Það er fín lína á milli þess sem maður hefði átt að gera og þess sem maður hefði betur látið ógert. Í tilfelli bindindismanna er þessi lína ávallt hrein og bein, a og b hafa verið ákvörðuð. Hinsvegar virðast þeir sem eru undir áhrifum áfengis tvídiffra þessa línu þannig að almenn skynsemi hverfur. Sumir glata allri siðferðiskennd meðan aðrir vilja tala um það sem er búið og gert meðan sumir missa málið. Svona er þetta bara. Í kvöld ætla einhverjir í nördafélaginu að tvídiffra en síðan vakna þeir á morgun, finna sér fasta og tegra hann. En áður en við tökum upp diffurdósirnar ætlum við að fara í fótbolta og sprengja í nokkrum tuðrum.

Langar til að benda fólki á þetta. Ég hef ekki hlegið svona mikið í langan tíma.

Skrifað af Jóni Emil -


fimmtudagur, júlí 28, 2005 

Hrumpf

Grótta vinnur góðan leik
gráta hinir kapparnir
Númi átti never breik
negldir voru tapparnir

Já, við getum svo sannarlega verið ánægð með félaga okkar í Gróttu. Svenni, Garðar á Sólbraut 11 eða 15 og Atli úr 6.X rótburstuðu strákana í Núma 9-1. Það hefði nú verið gaman að fá að vera með en svona er boltinn. Tvö fótboltasumur orðinn að litlu vegna meiðsla. Annars er frekar lítið að frétta. Afgreiddi þrjár 6 feta 10 mm kambstálsstangir fyrir Jim Rose sirkusinn. Svo virðist sem einhver sé að fara að beygja þær á maganum á sér. Kambstál er líka oft kallað steypustyrktarjárn, þetta eru ryðguðu stálstangirnar sem standa oft upp úr steypuklumpum.

Á morgun verður partý hjá Svenna. Grill, pottur og kassi af bjór?

Veit einhver af hverju þetta er ekki fullkomin ferskeytla?

Skrifað af Jóni Emil -


föstudagur, júlí 22, 2005 

Veiðivötn

Toppnum er náð. Nú er það bara BYKO, BYKO, BYKO. Btw það er sumarveisla í BYKO Hringbraut á morgun. Pulsur, Coke, hoppukastali og brjálað að gera. Endilega mætið með alla fjölskylduna, kæmi mér ekki á óvart ef KR-ingar sæu um grillunina.

Það var frábært í Veiðivötnum enda hefur ekki verið betra veður þarna í manna minnum. Tvisvar verður sá sæll sem á steinninn sest, nema hann sé mosavaxinn. Þetta spakmæli heyrði ég í fyrsta skiptið fyrir ári og nú aftur í dag. Steini, bróðir hans afa, veit sínu viti og það sama gildir um afa. Þannig er nefnilega mál með vexti að á miðvikudaginn kom bara frekar sæt stelpa hingað í Veiðivötnin. Einsi hafði sko gaman af því að stríða mér og sagði eitthvað í líkingu við að ég ætti að reyna að veiða meira en fisk í þessari ferð. Þegar ég sagði að það yrði nú líklega erfitt að heilla stelpuna (höstla) þegar pabbi hennar væri handan við hornið. Þá sagði afi: "Nei þú talar bara við pabbann og lætur sem þú sjáir hana ekki. Þá verður hún fúl og fer að gefa þér auga þá getur þú byrjað að sleikja úr henni fíluna. Þú veist hvað þeir segja. Ástin byrjar uppi í haus og endar milli lappanna." Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt afa tala svona, líklega leyfir hann sér það bara þegar amma er ekki nálægt. Hvort að afi hafði rétt fyrir sér veit ég ekki enda veit ég lítið þegar kemur að svoleiðismálum. Já, hann afi leynir á sér.

Skrifað af Jóni Emil -


mánudagur, júlí 18, 2005 

Já,

en ég kann bara ekkert á html...

Síðustu dagar hafa verið viðburðaríkir. Fór til Salamanca á Spáni til þess að keppa í IPho 2005. Það gekk ekkert allt of vel hjá mér en hann Einar Búi stóð sig með ágætum og landaði Honourable Mention. Flugið var mjög snemma og er ég klöngraðist hálfsofandi með ferðatöskuna upp stigann tókst mér að detta og snúa öklann. Það fyrsta sem mamma sagði þegar hún heyrði ópin var "fall er fararheill". Stuttu seinna kom leigubílinn að sækja okkur. Þegar Gulli sá að ég haltraði sagði hann "jæja, fall er faraheill" en nú veit ég betur. Það munaði reyndar litlu að ég missti af flugvélinni frá Keflavík til Heathrow vegna þess að mér tókst að týna boarding passanum í fríhöfninni. Ég haltraði eins og brjálæðingur um búðina þar sem ég keypti X&Y og In Your Honour (er ég ekki týpískur gæi) meðan félagar mínir biðu eftir mér hjá hliðinu. Að lokum gafst ég upp og lagði örlög mín í hendur starfsmannanna við hliðið. Um leið og ég hafði lokið við að útskýra fyrir þeim hvað orðið hafði um miðan minn heyrðist í kallarakerfinu eitthvað í líkingu við "Mr. Gudmundsson, Mr Gudmundsson, please return to the information desk for your boarding pass." Mikið var ég glaður. Á Heathrow keypti ég Beckham sköfuna (týpískt?). Meðan ég var úti hugsaði ég mikið um að ég þyrfti að skrifa eitthvað á þessa síðu. Nennti því ekki. Enda var þessi ferð ekkert í líkingu við ævintýrin í Grikklandi.

Síðan kom ég heim og fór beint út á Snæfellsnes. Þar var alveg ótrúlega gaman. Takk fyrir komuna og takk fyrir mig. Endilega kíkið á myndirnar.

Skrifað af Jóni Emil -