miðvikudagur, júní 22, 2005 

Er gaman að blogga?

Stundum eru menn svo gáfaðir að fólk í návist þeirra fær hroll og snert af minnimáttarkennd. Þannig er það einmitt með manninn sem fræddi okkur um skammtafræði. Virkilega fyndinn náungi sem minnir dálítið á karakterinn í South Park sem segir alltaf ókey eða réttara sagt m'key. Það er alltaf jafn skemmtilegt í skólanum. Reyndar ekki alveg jafn gaman og síðasta sumar en þetta er skemmtilegt á annan hátt. Krakkarnir eru mjög sniðugir. Sérstaklega hann Kit sem ætlar líka í eðlisfræði í haust. Um daginn sparkaði ég bolta í nefið á Kit svo hann fékk blóðnasir (það var áður en ökklinn tók pí fjórðu uppi á Valhúsahæð). Hann er samt búinn að fyrirgefa mér enda er hann frábær náungi. Í dag komst ég að því hvernig maður brýtur segla í marga minni segla. Ég var dálítið smeykur þegar ég sagði honum Ara frá (Ari virðist eiga allt dótið í VR1) en hann hló bara og gerði grín að mér. Á sama tíma komst Einar Búi að leyndardómum lögmálsins um varðveislu hverfiþunga þegar hann þeyttist af hringekju. Líklega fyndnasta myndbandið sem ég geymi í símanum mínum (myndbandið af fúxinum og dúxinum er líka ágætt). Í dag gerðist þau undir og stórmerki að öll þrjú Ólympíuliðin komu saman á túninu milli VR eins og tveggja. Efnó og eðló spiluðu fótbolta meðan ég rabbaði við krakkana í stæfó. Ég var ekkert allt of ánægður með félagana mína í eðló enda töpuðu þeir á móti Pajdak og genginu hans. Pajdak („Hva... kaldhæðin spurning?“) er aftur mættur í efnó en ásamt honum var einn strákur úr MA, annar strákur og dularfull stelpa. Verðum aðeins að fara yfir hlutina ef við ætlum okkur að valta yfir eðlisfræðilúðana á Spáni. Í stæfó eru Örn (fyrirliðinn en þó ekki aldursforseti), Inga Steinunn, María Helga, Einar Axel, Benjamín og gaurinn úr Hraðbraut. Þessa daganna hef ég undantekningarlaust séð Einar Axel með sígarettu í munnvikinu og kemur það mjög á óvart. Hann er farinn að minna á gáfaða gaurinn í myndinni Road Trip, þeirri ágætu mynd.

Skrifað af Jóni Emil -