sunnudagur, desember 25, 2005 

Myndir

Ég er að hugsa um að bíða aðeins með næsta topp tíu lista. Ég setti samt nýjar myndir inn á www.mmedia.is/vjeg

kveðja, Jón Emill

Skrifað af Jóni Emil -


miðvikudagur, desember 21, 2005 

Væntingar

Það var ótrúlega mikið fólk í Kringlunni og til marks um það: Þegar ég þóttist hafa séð manneskju sem ég þekkti en gerði mér síðan grein fyrir því að það væri ekki hún þá leit ég í hina áttina og sá þá manneskjuna sem ég taldi mig hafa séð en í þetta skiptið var það í raun og veru hún. Vonandi skiljið þið.

Hitti nokkra í Kringlunni. Talaði við suma. Skeit upp á bak í einni samræðu. Ótrúlega vandræðalegt, næstum jafn vandræðalegt og þegar "Kári" gerði grín að samkynhneigðum um daginn.

Eftir Kringluna fór ég í bæinn, nánar tiltekið í Skífuna, Mál og Menningu, Póstinn og Bæjarins Bestu. Ég lagði hjá MR og labbaði um stræti miðbæjarins í veðrinu fallega. Skífan stóð heldur betur undir væntingum og það gerði Mál og Menning líka. Pósturinn var sæmilegur en Bæjarins Bestu skitu aðeins á sig. Einhver nýgræðingur að vinna sem vissi ekki alveg hvað "slatta af tómatsósu" þýddi.

Já ég er búinn í prófum. Það er stórkostlegt, frábært, og allt það. Samt ekkert spes, alla vega ekki alveg eins spes og hélt að það yrði. Þið þekkið það kannski. Einhver sagði mér að það væri best að geri með sér eins litlar væntingar til jólafríssins og hægt væri, jólin væru í raun bara ósköp venjulegir dagar. Í þetta skiptið kýs ég að hlusta ekki á heilræði umrædds manns. Ég vænti þess að jólin verði mjög skemmtileg.

Farinn að hlaða myndavélin :)

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, desember 18, 2005 

Fatlajól

Ég ætlaði að skrifa sögu og birta hérna á síðunni. Reyndar skrifaði ég þessa sögu en hætti svo við. Sagan bar sterk merki þess að ég væri kominn með námsleiða. Sá námsleiði er nú horfinn en gleði og tilhlökkun hefur tekið við. Samt eru prófin ekki á enda.

Við höfum líklega öll þurft að ganga í gegnum svipað tímabil. Tímabil þar sem allt virðist erfitt og leiðinlegt eða jafnvel tímabil þar sem við erum tilbúin að gefast upp. En síðan gerist eitthvað. Þú horfir til himins, kynnist nýrri manneskju, eða verður fyrir lífreynslu sem breytir hugsunarhætti þínum. Það þarf svo lítið til að maður geri sér grein fyrir að erfiðleikar manns eru smámunir. Að það sem maður vildi einna helst sofa í gegnum er í raun gjöf sem á að njóta. Þið afsakið vonandi tilfinningasemina, ég verð svona stundum um jólin. Í dag komu jólin til mín en þau bönkuðu samt ekki upp á. Það var ég sem þurfti að taka fyrsta skrefið í átt að gleðilegum jólum.

jólakveðja, Jón Emill

Skrifað af Jóni Emil -


fimmtudagur, desember 15, 2005 

"Ég er ógeðslega skotinn í þér"

voru orðin sem fengu mig til að veltast um af hlátri. Ekki misskilja mig. Í stöðu sem þessari, þar sem öll augu beinast að manni og því sem maður segir, myndi ég ekki standa mig betur. Í mínu tilviki væri "ég er ógeðslega skotinn í þér" örugglega bara vel sloppið. En þrátt fyrir það get ég ekki stillt mig um að hlæja aðeins af því hvað íslenski Baskjelorinn er hræðilega hallærislegur. Þættirnir virðast samt hafa verið hin ágætasta skemmtun eða það segja þeir sem hafa verið að fylgjast með. Annars óska ég bara henni og honum alls hins besta.

Skrifað af Jóni Emil -


miðvikudagur, desember 14, 2005 

Mig hlakkar til

að geta slappað almennilega af þegar prófin eru búin. Unni Birnu hlakkar líka til að komast heim til Íslands. Og Sigmar Guðmundsson (þf.) úr Kastljósinu, sem er eitthvað að höstla dökkhærðu gelluna úr Ópinu, hlakkar líka til. (Getur maðurinn ekki verið með nafn sem er öðruvísi í þf. en nf!) Ég er nú bara að minnast á þetta því að Sigmar afvegaleiddi hana Unni Birnu okkar þegar hann spurði: "Og hvað hlakkar þig svo mest til að gera nú á næstu dögum?" Svaraði hún þá: Mig hlakkar mest að komast til Íslands..."

Annars er ég bara að drukkan í algebru.

Getur verið að þið fáið "meldingu" um notendanafn og lykilorð þegar þið farið inn á síðuna. Eða er þetta bara eitthvað rugl í netvafranum mínum?

Kveðja, Jón Emill

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, desember 11, 2005 

Flippidíflippfloppflapp

Tilkynning: Jón Emil Guðmundsson aumur eðlisfræðinemi og fyrrverandi starfsmaður í byggingarvöruverslun hefur tekist að hrekja kenningar Newtons um eiginleika þyngdaraflsins. Svo virðist sem að áður umrædd hverfitregða við snúningi frá próflestri sé ekkert annað en vörpun tímarúmsins. Þegar Jón Emil gerði sér grein fyrir þessu átti hann einfalt með að taka sér smá tíma frá próflestri og skella inn svona eins og einn ótrúlega langri færslu. Auðvitað kætast lesendur þessarar bloggsíðu við þessar fréttir en þetta þýðir einmitt að hér fyrir neðan sé næsti topp tíu listi.

Hugmyndin var fyrst að hafa smá svona jólaþema en ég er að pæla í að geyma það þangað til næst. Þess í stað ákvað ég bara að vera flippaður (þú afsakar Edda, en þetta er hvort eð er ekki fimmtudagur) og hafa þemað flippaðar myndir. Flipp er ekki skilgreint í orðabókinni minni og sjálfur veit ég varla hvað það er. Ég hef samt einhverja hugmynd um hvernig það lítur út vegna þess að ég hef tekið myndir af fólki sem virðist vera flippað á einn eða annan hátt. Þegar ég fletti í gegnum myndasafnið mitt birtist heill hellingur af flippuðum myndum og sé ég því fram á þurfa að birta nokkra topp 10 lista með þessu þema. Segjum að þetta séu fjórðungsúrslit eða eitthvað. Ég ætla að setja myndirnar inn í röð en þið getið líka sagt hvað ykkur finnst og hjálpað mér við að velja flippuðustu mynd sem tekin hefur verið á Ixusinn (nei þetta er ekki bíll).

Jæja munstrið kallar þannig að það er best að ég skelli myndunum bara inn.

10. "So do you guys like hate America" - ódauðlegt, eða bara kannski alltaf dautt
9. Drekka nokkra kokteila svo einn eða tvo Carlsberg labba um Vilnius koma svo heim og fara í Mafíu.
8. Nördafélagið
7. Nördafélagið
6. Búntið
5. Menningarnóttin
4. Menningarnóttin
3. Snæfellsnesið
2. Jubilantaballið

Mynd númer 1 er of góð sorrý

-----------------------------------viðbót/ábót------------------------------------------------
Staðgengilsfyrstasæti:

1. Fannst þessi vera ansi flippaður

Skrifað af Jóni Emil -


laugardagur, desember 10, 2005 

Níhá Sanya!




Jæja nú er eðlisfræðin búin og næst tekur stærðfræðimunstrið við. Planið var að byrja að læra um leið og ég kæmi heim en svo heimskaðist ég til að kveikja á sjónvarpinu og kíkja á Skjá einn. Þannig að í staðinn fyrir að læra þá horfði ég á Miss World og tók niður skemmtilega punkta á fartölvuna.

Það sem mér fannst merkilegt:

Kjóllinn hjá tyrklandi. Hef ekki mikið vit á svona hlutum en kjóllinn var samt geðveikur!
Ungrú Rússland vildi segja meira en fékk það ekki því kynnirinn hrifsaði hljóðnemann til sín. Ótrúlega fyndið.
Unnur Birna er hún lögreglukona?
"All my life I have been searching for the beautiful" -Miss Korea
Önnur Byrna Vilhjamsdooodir
Íslenski kynnirinn: "og bara svona til að láta ykkur vita hún er ekki bara falleg hún er yndisleg"

Jæja nú er búið að velja top 6 og er Unnur þar á meðal:
Hinar eru frá:

Ítalíu
Tansaníu
Mexíkó
Puerto Ríkó
Kóreu

3. Púertó Ríkó
2. Mexíkó
1.Ísland!!

YESSSSSS!!!!!!!!!!!!

Skrifað af Jóni Emil -


fimmtudagur, desember 08, 2005 

"Da stehen lauter Schildkröten aufeinander"

Upphaf bókar sem mér þykir afar vænt um:

A well-known scientist (some say it was Bertrand Russell) once gave a public lecture on astronomy. He described how the earth orbits around the sun and how the sun, in turn, orbits around the center of a vast collection of stars called our galaxy. At the end of the lecture, a little old lady at the back of the room got up and said: "What you have told us is rubbish. The world is really a flat plate supported on the back of a giant tortoise." The scientist gave a superior smile before replying. "What is the tortoise standing on?" "You're very clever, young man, very clever" said the old lady. "But it's turtles all the way down!"

Næstu dagar munu að öllum líkindum snúast með miklum hverfiþunga um jólaprófin. Í samræmi við fyrsta lögmál Newtons þá mun ég líklega sýna tregðu við breytingu frá þeirri stefnu og þar af leiðindi gæti orðið lítið um bloggfærslur.

Baráttukveðjur!

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, desember 04, 2005 

Höndin


Seint í maí, fyrir nokkrum árum síðan, fóru 6. bekkingar Breiðagerðisskóla í útilegu við Úlfljótsvatn. En eins og flestir vita eru aðalbækistöðvar íslenskra skáta við Úlfljótsvatn. Veðrið var fallegt, heitt og heiðskýrt og allir krakkarnir voru kátir. Allt var eins og það átti að vera. Hrekkjusvínið var fljótt að aðlagast breyttu umhverfi enda var eitt af fyrstu verkum þess að hrinda mér ofan í á er ég hallaði mér fram til að súpa í vatnshléi fótboltaleiks. Já, allt var eins og það átti að vera. Ekki langt frá því þar sem við gistum fundum við einhvers konar vatnsleiktækjagarð með fjöldanum öllum af sniðugum tækjum fyrir hressa krakka. Skátarnir kölluðu þetta vatnasafarí. Mikið ótrúlega var gaman þá. Nú gat maður meira að segja hefnt fyrir það sem hrekkjusvínið hafði gert, án þess að eiga hættu á að vera laminn. En það var ekki bara eintóm hamingja við Úlfljótsvatn. Fullorðna fólkið, sem alltaf þykist vita best, ákvað að nú skildum við fara í ratleik. Þessi ratleikur átti að kenna okkur hvernig skátar hugsuðu. Þrátt fyrir hræðilegan ratleik og meira að segja þó að krakkarnir væru búnir að segja að það einu sem þeir vildu gera væri að leika sér í vatnasafaríinu fannst fullorðna fólkinu að áfram skildi haldið við uppfræðslu barnanna. Skiptu þeir börnunum í hópa og létu einn leiðbeinandi fylgja hverjum hóp. Fyrir hópnum mínum var unglegur maður í hettupeysu. Okkur fannst pínu eins og hann væri enn þá einn af okkur, einn af unga fólkinu, vegna þess hvernig hann bar sig. Hann var með sítt hár, með hendurnar í hettupeysuvösunum og það sást að hann hafði lítinn áhuga á því sem að aðalskátinn sagði. Glaðleg gengum við á eftir unga manninum sem labbaði hægt og rólega að kofa einum ekki skammt frá aðalbækistöðvunum. Inni í kofanum var ekkert annað en kojur og sagði hann að við skildum fá okkur sæti. Þegar ungi maðurinn hafði fengið þögn byrjaði hann að segja okkur sögu. Þessari sögu mun ég líklega aldrei gleyma. Hún var einhvern veginn svona.

Kvöld eitt seint í desember gekk maður af heimili tengdaforeldra sinna með ungabarnið sitt sofandi í örmunum. Maðurinn var orðinn þreyttur eftir tilgangslausar samræður sem hann hafði þurft að halda uppi þar sem eiginkona hans, sem var flugfreyja, hafði tafist í útlöndum. Þegar komið var að því að festa barnið í barnastólnum sagði einhver rödd í hausnum á honum að það tæki því ekki. Barnið væri sofandi og það væri hvort eð er svo stutt heim. Hann gæti lagt barnið í aftursætið og keyrt varlega.
En því miður var hann ekki eini hættulegi ökumaðurinn í umferðinni þetta kvöld. Einhver hálfdrukkinn hálfviti á leið heim af jólahlaðborði sá ekki rauða ljósið er hann keyrði eftir Hringbrautinni og heldur ekki nýja bílinn sem var fyrir framan hann. Keyrði hann því á fullri ferð aftan á bíl föðursins. Barnið, sem ekki hafði verið fest, fór á milli framsætanna í gegnum framrúðuna og endaði í polli ekki langt frá bílnum. Sem betur fer meiddist ungi faðirinn ekki. Hann hljóp út úr bílnum og að barni sínu. Faðirinn uppgötvaði sér til skelfingar að barnið hafði misst aðra höndina en það hafði enn þá veikan andardrátt. Til allrar lukku kunni faðirinn hjálp í viðlögum. Það fyrsta sem hann gerði var að tryggja slysstaðinn. Hann hljóp að skotti nýja bílsins síns, náði í vákant og setti þar sem að vegfarendur sæju hann greinilega. Því næst hljóp hann að barni sínu og lagði það sem eftir var af handlegg barnsins í kaldan pollinn og hægði þar með á blæðingunni. Síðan hringdi hann á hjálp.
Þegar hér var komið við sögu voru nokkrir saklausir krakkar úr Bústaðahverfinu hvítir í framan af skelfingu. Þeir voru ekki undrandi yfir því að ungi maðurinn skildi segja svona hræðilega sögu til að koma boðskap sínum til skila. Þau voru of ung til að velta vöngum yfir því. Þess í stað voru þau undrandi yfir heimsku mannanna í sögunni. Einn saklaus og hæfilega vel upp alinn drengur rétti upp hönd og sagði: “Hvað var maðurinn að hugsa! Fyrst að hann vissi hvernig átti að bregðast þegar slysið varð, af hverju gerði hann þá ekki rétt við barnið sitt? Mér finnst að maðurinn hefði átt að missa höndina en ekki barnið.” Við þetta varð sögumaðurinn reiður og sagði: “Þú hefur engan rétt til að segja svona” Fór hann því næst úr hettupeysu sinni og sáu krakkarnir þá að annar handleggurinn var styttri en hinn. Hrekkjusvínið hló! “Þetta var pabbi minn” sagði hann “og ég er búinn að fyrirgefa honum.”
Saklausi, vel upp aldi drengurinn úr Bústaðahverfinu varð nú jafnvel enn fölari en hann hafði verið. Hann gat með engu móti horft í augun á sögumanninum hvað þá á handlegginn sem vantaði. Það sem eftir lifði þessarar ferðar lá drengurinn í koju sinni meðan hin saklausu börnin úr Bústaðahverfinu léku sér í vatnasafaríinu.

Skrifað af Jóni Emil -


föstudagur, desember 02, 2005 

draslum braslum

Þar sem ég gæti varla verið í ófrumlegra stuði í kvöld þá datt mér í hug að stela þessari mynd og setja hana á bloggsíðuna mína. Á myndinni á að vera hægt að sjá 75 hljómsveitir. Hvað sjáið þið margar?

Skrifað af Jóni Emil -