sunnudagur, janúar 29, 2006 

"Með skemmtilegri böllum"

Eftir erfiðan en sem betur fer óhappalausan bolta í gær fóru ég og Svenni heim að gera okkur sæta fyrir þorrablótið. Kvöldið byrjaði heima hjá honum Daða þar sem félagarnir hittust og drukku áfengi. Alveg ágætis partý. Þegar Svenni og ég vorum orðnir nokkuð kenndir ákváðum við að rölta upp í félagsheimili þar sem menn í svörtum fötum stjórnuðu dansi. Hugmyndin var að kíkja aðeins á ballið en við vorum alls ekki vongóðir um að finna marga skemmtilega dansfélaga. Vorum nefnilega dáldið undir meðalaldri. Annað kom á daginn og verð ég bara að segja að þetta er eitt af skemmtilegri böllum sem ég hef farið á. Spurning hvort að Svenni vilji segja eitthvað um kvöldið?

Skrifað af Jóni Emil -


laugardagur, janúar 28, 2006 

Ég tralla líka fyrir mig

Einhver sagði að maður þyrfti þrjú líf. Eitt til að lesa, eitt til að lifa og eitt til að skrifa. Hann var víst skáld. Ég held alla vega að það hljóti að vera mjög erfitt að lesa og skrifa á sama tíma. Að lifa og skrifa, það gæti gengið. Einhver annar sagði að hann væri til í að heyra framhald á sögunni um Guðrúnu og Magnús. Ég var ekki alveg viss í fyrstu, einhvern veginn hafði ég ekki hugsað söguna sem framhaldssögu. En það sakar samt ekki að leika sér aðeins með persónurnar. Ég meina, það er ekki eins og þetta séu raunverulegar manneskjur eða neitt svoleiðis. Sáuð þið stjörnurnar í gær? Ég var hársbreidd frá því að keyra út í Þórsmörk og byrja að telja. Jæja, kýlum á þetta.


Gat þetta virkilega verið hún. Hvít prjónahúfa og græn úlpa. Jú, þetta hlaut að vera hún. Magnús leit upp og þakkaði veðurguðunum. Hann man þegar hann sá hana í annað skiptið.

Þau voru að labba sitt í hvora áttina. Hún í grænu úlpunni og með hvítu prjónahúfuna en hann í brúnni ullarpeysu með fallegu mynstri sem amma hans hafði saumað á hann. Það voru þrír ljósastaurar á milli þeirra en Magnús sá að þarna var engin venjulega stelpa á ferð. Þetta var sæta stelpan sem var með honum í heimspekilegum forspjallsvísindum. Hann leit niður á blauta jörðina og hugsaði hvernig hann ætti að gera þetta. Hann fann hvernig hann varð allur stressaður. Hættu þessu, hugsaði Maggi. Hættu að pæla svona mikið í hlutunum og reyndu bara að vera rólegur og yfirvegaður. Magnús var, annað en Guðrún hélt, ekkert öðruvísi en flestir. Hann hafði áhuga á stelpum og var alltaf að horfa í kringum sig. Tveir ljósastaurar. Magnús var að velta því fyrir sér hvort að hann ætti að horfa í augun á henni og brosa eða láta sem hann sæi hana ekki og horfa beint fram. Hann leit upp, hún var enn þá þarna og færðist nær. Magnús labbaði eilítið hægar og virtist djúpt hugsi. Það var eins og hann myndi eftir að hann hefði gleymt einhverju og yrði að snúa við. Hann hélt samt áfram. Einn ljósastaur. Magnús leit upp og á stelpuna, pýrði augun dulítið og brosti svo. Stelpan hafði ekki tekið eftir honum, hún var með eitthvað í eyrunum og átti það hug hennar allan. Magnús horfði áfram á hana vingjarnlegu en jafnframt rannsakandi augnarráði. Mikið ótrúlega var hún falleg. Nú leit hún upp frá tónlistinni og á hann. Hún leit í augun á honum og gerði sér grein fyrir að hann hafði verið að horfa á hana. Hún setti upp svip, sem Maggi átti erfitt með að túlka, og var síðan horfinn úr sjónsviði hans. Shit, hvað var ég að pæla. Magga langaði helst til að runnarnir gleyptu sig.


"Hversu agnarlítið brot af endalaus ómæli tímans fellur ekki í hlut sérhvers okkar! Hve fljótt er það ekki að týnast í eilífðinni!"

Nú sá hann hana og var það ekki í þriðja skiptið, líklega nær því að vera í tuttugasta. Þorrinn var kominn og veðurharkan fylgdi fast á eftir. Það hafði snjóað mikið síðustu daga og margir ökumenn lent í vandræðum. Þarna stóð hún við bílinn sinn sem var fastur í skafli. Athugið að þetta var ekki skaflinn sem leit út eins og hús, hann var kominn og farinn og kominn og farinn. Á allt öðrum stað. Magnús var farinn að gallopa í snjónum, hann ætlaði sko að vera riddaralegur og bjóða henni hjálp. Stelpan var að leita að einhverju í skottinu þegar Magnús kom að henni og sagði sterkri en jafnframt herramannslegri röddu: “Get ég aðstoðað?” Stúlkunni brá svo mikið að hún rak höfuðið upp í skottlokið féll ofan í rúmgott skottið en bar hendurnar fyrir sig. Því miður þurftu hendurnar að lenda ofan á spaða skóflunnar sem hún hafði verið að leita að svo að skaftið skaust upp og í hausinn á henni. Hún féll aftur fyrir sig og lenti ofan í eina slabbpolli Höfuðborgarsvæðisins.

Magnús hélt fyrir andlitið og þakkaði Markúsi Árelíusi kærlega fyrir heilræðið.

Skrifað af Jóni Emil -


miðvikudagur, janúar 25, 2006 

"All the girls want to get carnal with me because of my premium dance moves."

Merkilegri fimm mínútur meðan ég bíð eftir strætó man ég ekki eftir að hafa upplifað. Þetta gerðist í gær og byrjaði með því að mér varð kalt á öklunum vegna þess að strætóskýlið er ekki fullkomlega vindhelt og það var mikll vindur í gær. Síðan sá ég tóman poka af Freyju möndlum skoppa yfir götuna og ég hugsaði til þess hve möndlur væru ofsalega góðar. Sérstaklega ef maður fengi sér margar í einu. Nú leit ég til vinstri og sá stelpu á leiðinni að strætóskýlinu sem ég þóttist kannast við. Þetta var hún Salvör. Bros færðist á varirnar og ég labbaði í áttina að henni horfandi stíft í augun á henni. Ég sagði “haæja” vegna þess í þeim töluðum orðum gerði ég mér grein fyrir að þetta var ekki Salvör. Ég leit vandræðalega upp frá augum stelpunnar og horfði fram yfir hana. Þar sá ég hann Hlyn Grétarsson í fjarska og til að halda kúlinu fyrir stelpunni sem ég hélt að hefði verið Salvör þá ákvað ég að kalla til Hlyns sem var samt í svo mikilli fjarlægð að það var heimskulegt að kalla, sérstaklega í þessum vindi. Hlynur kom nær og nær og ég heilsaði honum bara eins og venjulega. Hann hélt áfram fram hjá strætóskýlinu og var víst á leiðinni til systur sinnar. Þegar þetta var búið sá ég Hermann Þórisson líkindafræðiprófessor labba þvert yfir götuna talandi í síma og segja “það myndi gera um 3,5 milljarða”. Þannig hafið þið það.

Já, það er svo sannarlega mjög lítið merkilegt að gerast hjá manni þessa dagana eins og sagan að ofan gefur til kynna. Fótbolti, skóli, lestur góðra bóka, hlustun góðrar tónlistar og horfun góðra kvikmynda eru það sem maður gerir helst. Er að lesa bók sem heitir Everything is Illuminated eftir einhvern Jonathan Safran Foer. Hún er búinn að vera mjög skemmtileg hingað til. Hlynur benti mér síðan á að það er búið að gera mynd eftir henni og leikur höfundur bókarinnar meira að segja í henni. Ef ég skil rétt þá er höfundur bókarinnar persóna í sögunni og síðan leikur höfundurinn líka persónu í kvikmyndinni en samt ekki sömu persónu, hann leyfir Ellijah Wood að leika sig. Hérna er trailer.

Ég á það líka til að skoða fyndin myndbrot. Hérna er eitt. Á dáldið bágt með að trúa að Halldór Ásgrímsson sé fær um að standa upp á borðum og hrópa "Lets get the party started". Ég veit ekki hvað mér finnst um hann eyrnapinna.

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, janúar 22, 2006 

Kipp í flipp

Það er flipp að hlaupa út á náttfötunum til að losa bíl nágrannans úr skafli. Það er flipp að hafa þessa mynd af mér sem banner, flipp sem ég mun mjög líklega hætta. Það er flipp að eyða meiri hluta helgarinnar í flipp þegar maður á að vera að læra. Það er til fullt af flippi í heiminum, hérna er brot af því besta...

10. Það er flipp að borða svona.
9.
Það er flipp að borða hvað sem hún var að borða.
8. Það er flipp að klæða sig svona, en líka bara mjög töff.
7. Það er flipp að snúa fötunum öfugt.
6. Það er flipp að ríða svíni.
5. Það er flipp að pósa með öpum.
4. Það er flipp að kasta fólki svona upp.
3. Það er flipp að vera með barta.
2. Það er flipp að drekka og gera svona.
1. Það er flipp að drekka og gera svona með...

Skrifað af Jóni Emil -


laugardagur, janúar 21, 2006 

Breytingar

Jæja, ég er að reyna að breyta aðeins til á þessari bloggsíðu. Vonandi á fólki eftir að finnast þægilegra að skoða síðuna. Ég vil þakka Bessa og Búnta kærlega fyrir hjálpina :)

Í gær fóru Stiglar, Vírar og Guðfræðinemar í Orkuveitu Reykjavíkur. Síðan tókum við strætó niður á Hressó og studdum hann Svenna en hann er á framboðslista Vöku. Kvöldið endaði síðan á nokkuð skemmtilegan hátt. Myndirnar frá kvöldinu eru hérna.

Spurning hvort að maður geri ekki einhvern topp tíu lista á morgun.

Skrifað af Jóni Emil -


mánudagur, janúar 16, 2006 

Hrafl


Það er ekkert eins og hressandi og að byrja nýtt ár á svona veseni sagði Magnús með uppgerðarkátínu og klappaði vinkonu sinni létt á bakið.

Já, ég ætti kannski að vera orðinn vön því sagði Guðrún, besta vinkona Magga, með tárin í augunum.

Guðrún og Magnús kynntust í menntaskóla, en þau voru af tilviljun látin vera saman í ritgerð. Bæði þekktu þau engan í skólanum og gátu því ekki haft uppi mótmæli þegar kennarinn skipaði þeim í hóp. Þau höfðu nú verið vinir í fimm ár og með hverju árinu sem leið styrktust vinarböndin. Kennaranum minntust þau með gleði í hjarta þó að í raun hafi þeim ekki líkað sérstaklega vel við hann. Daginn var nú aftur farið að lengja en Guðrún sá ekki sólina fyrir röndóttu koddaverinu.

Af hverju þarf þetta alltaf að henda mig? Hvað gerði ég vitlaust, er ég svona ógeðsleg eða er persónuleikinn minn á við maur? Kannski er mér ekki ætlað að... – Guðrún varðist ekki gráti.

Svona svona, hvað segirðu um að ég seti Pixies í tækin. Þeir hafa hjálpað mér þegar ég er reiður. Viltu að ég lesi eitt af nýju ljóðunum mínum? Ég samdi eitt um snjóskafl sem leit út eins og hús...

Nei Magnús, mig langar ekki til að hlusta á ljóðin þín. Ljóðin þín eiga svo sannarlega ekki við núna. Pixies aftur á móti máttu setja í botn. Doolitle eða Bossanova.

Meðan Pixies fylltu litla herbergið hennar Guðrúnar, sem minnkaði og minnkaði, af angurværð velti Magnús fyrir sér hversu oft Guðrún litla hefði þurft að þola stundir sem þessar. Hann vorkennti henni. Það hlýtur að vera hræðilegt erfitt að standa í þessum stefnumótaleikjum. Magnús hafði sjálfur lítinn áhuga á slíkum hlutum, alla vega eins er. Honum fannst mikilvægara að einbeita sér að náminu, nú þegar hann var kominn í háskóla og farinn að læra það sem honum þótti skemmtilegt. Hann hafði eitthvað verið að hitta eina stelpu fyrir löngu síðan en það var voða lítið og varð fljótt að engu. Magnús var í raun afar greindur piltur og lék allt í höndunum á honum. Guðrún var ekki í minnsta vafa um að Magnús myndi ná sér í eina myndarlega þegar hann kærði sig um það.


“If you go I will surely die.”

“In this land of strangers.”


Má ég segja þér sögu, spurði Magnús? Ekkert svar.
Einu sinni var stelpa sem var obboðslega skotin í strák. Stelpan hafði verið hrifin af stráknum í langan tíma en einn daginn tókst henni að mana í sig kjark til að bjóða stráknum á stefnumót. Strákurinn, hafði sko lítinn áhuga á því og lét sem hann sæi hana ekki. Til allrar hamingju átti stelpan vinkonu sem studdi hana næstu vikur meðan hún var að sætta sig við það sem var orðið. Tíminn leið og strákurinn sem eitt sinn leit ekki við stelpunni hafði nú gert sér grein fyrir ágætum hennar. Hann vissi að hún hefði eitt sinn verið hrifin af honum og ákvað hann þess vegna að það ætti að vera óhætt að bjóða henni á stefnumót. Stelpan, sem átti góðu vinkonuna, var nú búinn að jafna sig á stráknum og gott betur. Svaraði hún því boði stráksins neitandi... En til allarar hamingju átti strákurinn vin sem studdi hann næstu vikur meðan hann var að sætta sig við það sem var orðið.

Svona er þetta – útskýrði Maggi. Fólk er alltaf að byrja og hætta saman. Stundum heldur það að það sé hrifið að einhverri manneskju meðan sú manneskja lítur ekki við henni og svo snýst þetta við. Þetta er hræðilega flókið og erfitt. Ef ég mætti ráða þá hefði ég mann í vinnu, einhvers konar tengilið, sem kæmi í veg fyrir að fólk lenti í ástarsorg.

Hahaha. Guðrún hló og hristi höfuðið svo Magnús sá pollana á koddanum. Heldurðu að það myndi nokkurn tíman ganga. Ástin er ekki eitthvað sem þú getur fært í töflu. Það eru einmitt tilfinningarnar sem við leggjum að veði sem gera hana svona fallega og leyndardómsfulla. Hreynt út sagt hræðileg hugmynd Magnús minn sem sýnir að þú átt margt eftir ólært í þessum málum. Guðrún vissi að það sama gilti um hana og grúfði höfuðið aftur í koddann.

“Hold my head...My Velouria..I know she’s here, in California.”

Já það er kannski rétt hjá þér. Ég veit rosa lítið um svona hluti. Satt að segja finnst mér þetta helvítis tímaeyðsla ef ég á að segja þér eins og er. Endar svo oft með ósköpum og síðan situr maður eftir og starir í tómið sem virðist fullt af leyndardómum miðað við hausinn á sjálfum manni sem er hvergi, nema kannski á koddanum.

“Is She Weird”

Magnús grúfði sig yfir vinkonu sína og faðmaði. Mér þykir þetta svo leiðinlegt elsku Guðrún mín. Hvað get ég gert til að láta þér líða betur?

Þú getur sagt mér að ég eigi eftir að finna einhvern. Lofaðu mér að það sé einhver sem skilur mig. Einhver sem lítur ekki á mig sem bara ómerkilega og óspennandi manneskju.

“It is time for stormy weather.”

Nei hættu nú Guðrún. Þú ert einhver skemmtilegasta og hjartahlýjasta manneskja sem ég hef kynnst. Ég get lofað þér að þú átt eftir að finna einhvern sem er þín verður. Leyfðu mér nú að fara með ljóðið mitt, ég lofa að þetta er betra en ljóðið um haglélina.


Húsið sem ég leit.
Þetta er húsið sem ég veit.
Ískalt mætir vindi sem sverfur.
Hverfur jafnskjótt og það verður.

Fagurt en ég vissi það fallvalt
Þurrt er vindur blæs, og kalt
Heillast af sól, því
vindurinn kól
Skafl




Skrifað af Jóni Emil -


 

óformlegt spjall um náttúruna


Iðið í veggjunum (líklega eitthvað nagdýr), snjórinn sem hylur kjallaragluggann, blautt gras á heitri síðsumarsnótt og jafnvel hljóðið í niðurfalli nágrannans. Náttúran. Hún umlykur hlutmengi mannanna og á milli sérhvers staks er opið bil með óendanlega mörgum ómannlegum stökum náttúrunnar. Háfleygt eða vængbrotið? Mér er sama...

Með tímanum breytast áherslur mannsins. Eins og það var mikilvægt að fá eitthvað sætt í gogginn á laugardögum (það er reyndar alltaf jafn mikilvægt) eru “merkilegri” hlutir nú farnir að skipta mann máli. Hvað á ég að gera við lífið mitt? Hvar passa ég inn í “heildarmyndina? O.s.frv. Þessar hugsanir hellast yfir mann hver af fætur annarri þessa dagana. Einn hluti af þessu tímabili háleitra hugleyðinga varðar náttúruna okkar. Kannski er þetta bara “phase” eins og ameríkanarnir orða það, þ.e. eitthvað tímabil sem líður hjá. En ég vona reyndar ekki og ef marka má ömmu og afa sem á háa aldri ákváðu að planta nógu mörgum trjám til að vinna upp það tjón sem það að eiga bíl olli náttúrunni þá held ég að nú verði ekki aftur snúið. Mjög mörgum er annt um náttúruna okkar. Sést það t.d. ágætlega af þeirri staðreynd hve fljótt seldist upp á tónleikana Ertu Að Verða Náttúrulaus?. Tónleikarnir, sem voru fyrir rúmri viku, heppnuðust þegar á heildina er litið afar vel. Fjölmargir skemmtilegir listamenn stigu á stokk og heilluðu áhorfendur. Það var samt margt sem mátti fara betur eins og t.d. ræðan í upphafi og sú staðreynd að Sigur Rós var svo stuttan tíma á sviðinu að þeir hefðu allt eins getað sleppt því að mæta. En engu að síður var svo sannarlega þess virði að mæta á tónleikana sem voru hugsaðir sem mótmæli gegn virkjanaframkvæmdum hér á landi.

Með tímanum verð ég meira og meira sammála þeim sem eru á móti öllum virkjanaframkvæmdum. Ég veit ekki alveg af hverju og ég hef líklegast ekki mikinn rétt til að vera að ybba gogg (var sko að horfa á Valiant) þegar ég hef lítið sem ekkert kynnt mér staðreyndir málsins. En mín helstu rök eru líklegast þessi: Ímyndið ykkur stað á landinu sem er ykkur mjög kær. Og ég er ekki að tala um Gullfoss og Geysi, Þingvelli, Dettifoss o.s.frv. Ég er meira að hugsa um stað sem er ykkur hjartfólginn en ekki beinlínis þekktur af öllum lansmönnum. Þetta gæti verið lautin þar sem þú og kærastinn/kærastan kysstust í fyrsta skiptið (nú fer ég einhverra hluta vegna að hugsa um Rollinganna og Summer Lovin). Túnið sem þú og pabbi spiluðuð fótbolta saman. Tjörnina þar sem lærðir að skauta eða áin þar sem þú veiddir þinn fyrsta fisk. Það getur verið svo margt enda eru staðirnir þar sem hjörtu landsmannanna hafa skotið rótum svo margir og fjölbreyttir. Hugsið um þennan stað og ímyndið ykkur síðan að hann fari á kaf, það sé steypt yfir hann eða hann grafinn upp. Ég veit að ég myndi verja mína staði með kjafti og klóm. Damon Albarn sagði eitthvað álíka þegar hann kom í Kastljósið: “Þið Íslendingar eruð úrræðagóðir. Það hlýtur að vera önnur leið!” Og ég er sammála honum. En ég er hins vegar ekki sammála öllum náttúruverndarsinnum.

Ég veit um fagurgræna náttúruverndarsinna sem mig langar helst til að kjöldraga. Það eru þeir sem eru á móti hvalveiðum. Ég er á móti því að Íslendingar hefji hvalveiðar en það er ekki vegna þess að mér finnst rangt að drepa hvali. Það er vegna þess að fagurgrænu náttúruverndarsinnar hafa fjölgað sér og finnast nú í hverju landi sem er, með eða án strandlengju. Ef við Íslendingar hæfum hvalveiðar myndi það líklegast sverta þá ímynd sem útlendingar hafa á landinu svo mikið að landið í heild sinni myndi tapa á því. Svona grænfriðungar pirra mig næstum því jafnmikið og hippar fara í taugarnar á Eric Cartman. Talandi um hippa...

Mér finnst það frekar ólíklegt að Nördafélagið fái miða á einhvern af leikjum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Eftirspurnin er bara svo ótrúlega mikil. Þá er spurning hvað maður ætlar að gera við sumarið 2006? Margir hippar og meira að segja sumir sem ég hafði ekki haldið að væru hippar hafa verið að tala um Hróarskeldu. Rumor has it að hljómsveitin Radiohead muni mæta. Það væri þá fyrsta útihátíðin mín...

Jæja ég er hættur að rausa og farinn að sofa í hausinn á mér. Ef það var einhver boðskapur í þessu óformlega spjalli mínu þá er hann líklegast: Elskið náttúruna en látið ekki kappið bera fegurðina ofurliði.

Skrifað af Jóni Emil -


miðvikudagur, janúar 11, 2006 

náttmör

Þó að ég rembist eins og rjúpa við staurinn á ég erfitt með að skrifa blogghæfahluti þessa dagana. Þetta get ég ekki þrátt fyrir að “bloggstandar” þessarar síðu hafi farið versnandi undanfarið. Ég vil biðjast afsökunar ef ég særði einhverja í síðustu færslu, ætli þetta hafi ekki verið vesæl tilraun hjá mér til að fá ykkur til að kommenta. Hver fílar ekki Möggu Stínu segi ég nú bara? En já, eins og ég sagði þá hef ég verið að rembast og rembast en ekkert gerist. Spurning hvort að ég borði meira af Kellogs All Bran rúsínukornfleksi eða á maður að borða minni? Mig minnir alla vega að rúsínur og góðar trefjar séu góðar fyrir hægðirnar. Já, rembingurinn skilaði engu svo að ég leit í glatkistuna og dró upp eina sögu sem ég hafði eitt sinn kastað frá mér sem hlessingi. Vonandi fellur hún í góðan jarðveg hjá einhverjum lesendum.

Dong ding

“Afi!” Hrópuðu börnin í kór og þustu í áttina að útidyrahurðinu. “Velkominn! Mamma, pabbi sjáið hver er kominn.” - “Takk fyrir börn. Gott að komast út úr tjillinum.”

Klukkan var orðin fimm og allir á heimilinu voru orðnir hreynir og fínir. Mamma og pabbi voru inni í eldhúsi að hugsa um jólasteikina meðan afi ruggaði sér í hægindastólnum frammi í stofu. Börnin léku sér í stofunni með nýja dótið sitt en mamma hafði keypt sér frið með því að leifa þeim að opna einn pakka. “Hvernig stuff er þetta!” –sagði afi. “Vott? Speismanna Barbie og nanópútergeimar!” –endurtók afi. “Þegar ég var ykkar aldri voru ónlí til venjuleg Barbie og Game Boy. Vott tíminn hefur tsjeinsað. Fáið þið ekki náttmarir af svona nanórugli? Stopp it börn það er að shorta í að við förum að borða. Leyfið mér frekar að tella ykkur sögu. Ég skal meira að segja træja að hafa hana á gömlu íslensku svo að þið skiljið mig betur.” -Börnin vissu hvað afa kunni að segja góðar sögur og voru þess vegna ekki lengi að láta frá sér nýja dótið og þyrpast um hægindastólinn hans. “Gamla íslenskan... það er sko way long síðan ég spíkaði hana. Bara ef hann Árni Johnsen hefði gettað vilja sínum framgengt. Þá væri brids til eyja og þið ekki svona ísóleruð. En það er nú best að træji.” -Afi hóf nú frásögnina.

Ég er að hugsa um að segja ykkur sögu af háskólaárum mínum. Það voru skemtilegir tímar. Jæja, hefst hér með sagan.

Haustið eftir að ég útskrifaðist frá MR þá byrjaði ég í háskólanum. Ég hafði skráð mig í stærðfræði og var mjög spenntur yfir því að byrja. Nokkrir skólafélagar úr MR fóru líka í stærðfræði, lærirsveinar Birgis minnir mig að þeir hafi kallað sig. En ég var samt lítið að hanga með þeim, mér finnst miklu skemmtilegra að vera með hinum krökkunum. Ég hafði ósköp gaman af stærðfræði en ég var samt ekkert rosalega duglegur við lesturinn. Ég eyddi mestum tíma mínum í að hlusta á tónlist á þessum árum. En já, haustið leið og fyrr en varði var kominn vetur og farið að styttast í jólaprófin. Þrátt fyrir það var ég ekkert orðinn duglegri við að lesa bækurnar mínar. Svo komu prófin og ég hafði lítið sem ekkert lesið. Prófin voru fjögur talsins en ég sá að það væri enginn möguleiki að ég næði þeim öllum. Ég ákvað því að einbeita mér að einu þeirra og treysta á heppni í hinum. Einsetti ég mér nú að ná síðasta prófinu, mig minnir að það hafi heitið stærðfræðigreining. Ég las því eins og algjör brjálæðingur í hálfan mánuð. Ég tók mér eingöngu hlé til að fara á klósettið og borða. Daginn fyrir prófið var ég búinn að lesa hátt í þúsund blaðsíður og reikna álíka mikið af dæmum. Mér hafði tekist að fylla heilan ruslapoka af dósum utan af orkudrykkjum og ætli ég hafi ekki borðað eins og þrjú kíló af Nóa Síríus konfekti. Þið munið að langaamma ykkar vann í Nóa Síríus. Ég var í raun orðinn uppgefinn og hálfbrjálaður af allri þessari stærðfræði. Mig dreymdi um stærðfræði og ég hló af bröndurum um diffrun falla. Þetta kvöld ákvað ég að leggja frá mér bækurnar og slappa aðeins af. Ég afréð því að rölta niður að vídeóleigunni til að leigja DVD. Mér fannst sniðugt að velja mynd sem tengdist á einhvern hátt stærðfræði, svona til að sjá hvernig alvöru stærðfræðingar hugsa, og stóð því valið á milli tveggja mynda. Önnur hét Good Will Hunting en ég hef aldrei verið mikið fyrir horvatnið hann Matt Damon. Hin hét A Beautiful Mind og var með uppáhaldsleikaranum mínum honum Russel Crowe. Myndin hafði fengið óskarsverðlaun og síðan höfðu vinir mínir mælt með henni. Ég ákvað því að taka hana.

Ég mætti ekki í prófið daginn eftir og ákvað seinna að skrá mig í sálfræði.

Þess má geta að ég fór með mömmu minni á þessa mynd í bíó og að ég lifði fram á síðustu mínútu í þeirri von um að maðurinn væri ekki geðveikur. Hann var geðveikur.

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, janúar 08, 2006 

"jeg er sku fanden gale mig ekki neinn islandsmann"

Já ég er enn þá að skrifa, jafnvel þó að þessi blogsíða sé álíka vinsæl og Magga Stína á vakningartónleikum. Ég lofaði topp tíu lista og hérna er hann, fullur af nostalgíu beint frá Króatíu. Njótið, eða njótið ekki, mér er farið að vera sama.

10.
9.
8.
7.
6.
5.
4.
3.
2.
1.

Skrifað af Jóni Emil -


laugardagur, janúar 07, 2006 

Gærdagurinn

Mig langar til að segja aðeins frá gærdagnum og mér er alveg sama þó að einhverjir uppar gagnrýni slíkar færslur. Gærdagurinn var nefnilega svo afskaplega vel heppnaður. Mig minnir að hann hafi byrjað stuttu eftir að ég setti myndina the Butterfly Effect í dvd-spilarann. Ég hafði ekki séð hana áður og lítið heyrt um hana. Eina sem ég vissi um hana var að Ashton Kutscher milf höstler og pönkari léki í henni. Án þess að skemma fyrir þeim sem eiga eftir að sjá hana vil ég bara segja að mér fannst myndin mjög góð og að Ashton kallinn stóð sig bara nokkuð vel að mínu mati. Eftir myndina svaf ég góða tólf tíma. Vaknaði, fékk mér að borða, las Heimsljós og hlustaði á tónlist. Síðan fór nördafélagið á pub quiz, drakk einn bjór í roki og rigningu, fór á Just Friends, drakk annan bjór þar, labbaði um götur Miðbæjarins í skítakulda, roki og rigningu. Tókum við því næst leigubíl í Kópavoginn til Össurar. Leigubílstjórinn sagði nokkra góða brandara á leiðinni, þar á meðal einn þar sem að hann sagðist eiga skóg í Fossvoginum. Svartaskóg? -spurði Svenni. Já já, ég var á labbi um þarna einhvers staðar og síðan týndi ég öðrum skónum. - svaraði bílstjórinn. Ég og Kári skelltum upp úr. Er við vorum komnir úr leigubílnum tókum við Kalla, en það vakti mikla athygli hinum megin í dalnum. Nú bönkuðum við upp á hjá Össuri sem tók vel á móti okkur ásamt Hlyni og bróður Össurar honum Grími. Afmælið var mjög skemmtilegt eins og myndirnar gefa vonandi til kynna. Takk fyrir mjög gott afmæli drengir, þið eruð frábærir. Hérna eru myndirnar.

Skrifað af Jóni Emil -


fimmtudagur, janúar 05, 2006 

Gagnrýnandi gagnrýndur

Mig langar til að kvarta yfir gagnrýni eins kvikmyndagagnrýnanda Morgunblaðsins. Gagnrýnandinn, sem heitir, Heiða Jóhannesdóttir, gaf nefnilega myndinni The Brothers Grimm FJÓRAR STJÖRNUR af fimm mögulegum. Ég hef hugsað mér að gagnrýna þessa gagnrýni.

1. Leikaraval: Mat Damon, horvatnið sem sló í gegn með myndinni Good Will Hunting, er að mínu mati ansi leiðinlegur leikari. Hann hefur kannski leikið í nokkrum góðum myndum en það að hann leiki í mynd segir manni ekkert um gæði myndarinnar eins og sannaðist kannski best í þessari mynd. Heath Ledger er alla vega skárri og virðist sem hann sé að þroskast eitthvað sem leikari frá því að hann var í myndum eins og Knights Tale og 10 Things I Hate About You. Auk þess er hann að fá mjög góða dóma fyrir leik sinn í myndinn Brokeback Mountain sem er eflaust ein af þessum Óskarsverðlaunabeitum. Kvenhetjan í myndinni var leikin af einhverri Keiru Knightley look a like sem stóð sig svo sem ágætlega. Það sem kannski gladdi mig mest var að Monica Bellucci birtist í myndinni þó ekki nema í smá tíma. Það er kannski rétt sem Kári minntist á um daginn að hún er dökkhærð og með stór brjóst sem gerir það að verkum að maður á ósköp einfalt með að láta sér líka við hana en engu að síður finnst mér Monica vera alveg ágætis leikkona. Síðan skemmir auðvitað ekki fyrir að hún er frönsk.

2. Tæknibrellurnar: Það kom fyrir í þessari mynd að grípa þurfti til tölvutækni til þess að gera ákveðin atriði. Eftir að hafa séð myndir eins og King Kong, Star Wars Episode III og jafnvel Serenity þurfti ekki sérfræðing til að gera sér grein fyrir að hér væru tæknibrellurnar í heldur verri gæðaflokki en tíðkast nú orðið. Nú segja eflaust margir að þetta sé ævintýri og þar skipti ekki máli að hafa hlutina flotta heldur sé mikilvægara að skapa rétta stemmningu. Það er mjög mikið til í þeim rökum en persónulega fyndist mér ekki verra að hlutirnir litu alla vega sæmilega út. Auk þess vil ég benda á að hljóð í myndinni var ansi slappt, kom það t.d. oft fyrir að maður heyrði "sound effects" eða réttara sagt leikhljóð sem hefur áður verið nauðgað í fjölmörgum myndum úr Hollywood verksmiðjunni. Einnig man ég ekki eftir því að hafa heyrt eitt gott lag í allri myndinni.

3. Handritið: Hér er það þar sem einhver stærstu mistökin eru gerð. Það er hægt að sætta sig við leiðinlega leikara og lélegar tæknibrellur ef handritið er gott en svo er ekki hér. Fyrst langar mig til að lýsa yfir vanþóknun minni á upprunalegu hugmyndinni. Að einhver hafi fengið hugmynd að mynd sem þessari og sest niður við að skrifa handritið er mér óskiljanlegt. Margar betri hugmyndir hafa sprottið upp úr samræðum í heitapottum Smáíbúðahverfisins. Brandararnir voru léleg samblanda af svörtum húmor og aulahúmor sem í mínu tilfelli náðu vart að kítla hláturtaugarnar. Handritshöfundurinn er Ehren Kruger, sem mér til mikillar furðu skrifaði handritið að Arlington Road sem er mjög góð mynd (www.imdb.com er frábær síða), er að því er virðist einhver Hollywood mella enda skrifaði hann handritið að myndum eins og Ring og Scream 3.

4. Leikstjórinn: Enginn annar en Terry Gilliam sem hefur leikstýrt myndum eins og Fear and Lothing in Las Vegas sem er að mínu mati svona semí góð en það sem er mikilvægara þá leikstýrði hann myndum Monty Python grínflokksins sem eru auðvitað bara tær snilld. Hann leikstýrði einnig myndinni Brazil sem ég hef ekki séð en á víst að vera mjög góð. Mér fannst því mjög leiðinlegt að heyra að það væri Terry Gilliam sem hefði látið Hollywood rassskella sig í myndinni The Brothers Grimm.

5. Að lokum vil ég nefna það að myndin King Kong fékk fjórar stjörnur hjá gagnrýnendum Morgublaðsins en það er varla hægt að bera þessar tvær myndir saman. King Kong er alla vega þúsund sinnum betri og sjáum við því kannski hérna einn af ókostum þess að hafa nokkra mismunandi smekkjaða gagnrýnendur.

Gagnrýnandanum og myndinni gef ég TVÆR STJÖRNUR sem þau geta deilt á milli.
-------------------------------------------------------------------------------------------------------
Annars fann ég nokkrar myndir frá gamlárskvöldi sem ég hafði gleymt að setja á www.mmedia.is/vjeg þær eru hérna.

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, janúar 01, 2006 

Zum Wohe


Ég leit í bók um tilvitnanir í viðleitni til þess að hefja þessa áramótafærslu með einhverju gáfulegu. Fletti að orðinu tími og sá þar nokkrar tilvitnanir. Einhver Goethe, sem var víst mjög rómantískt þýskt ljóðskáld, að segja að við höfum nógan tíma en að við kunnum bara ekki að fara vel með hann. Það var líklega flottasta tilvitnunin af þeim sem ég sá þó að þarna hefðu verið ekki minni spaðar en Shakespeare, Elísabet I og Seneca að gefa okkur heilræði. Ég leit í staðinn á næsta orð á eftir tímanum. Það var tíska: -Allar kynslóðir hæða gamla tísku, en fylgja fjálglega þeirri nýju. - H.D. Thoreau. Merkilegt!
Margt skemmtilegt gerðist árinu sem er að líða. Tregablandin gleðitilfinning sem fylgdi útskriftinni. Ólympíuleikarnir í eðlisfræði sem voru merkileg lífsreynsla. Ferðin með afa og Einsa í Veiðivötnin í besta veðri sem hægt er að ímynda sér. Afmælisveislan á Snæfellsnesi sem heppnaðist mjög vel. Háskólinn og ferðin með Hlynsa til London. Þetta og margt fleira.

Annars vil ég bara segja gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna.

Hérna eru myndir frá gamlárskvöldi.

Skrifað af Jóni Emil -