Á suðaustanverðum Reykjanesskaga stendur kirkja sem heitir Strandarkirkja. Sagan segir að eitt sinn hafi menn verið hætt komnir úti fyrir landi. Þá hétu þeir því að ef þeir næðu landi skyldu þeir reisa kirkju við ströndina. Í fjöruborðinu sáu þeir engil sem lægði veðrið um stundarsakir og vísaði þeim veginn inn í grýtta víkina. Þar stendur nú Strandarkirkja og er sagt að þetta sé einhver ríkasta sóknin á landinu þar sem kirkjan hefur reynst vel í áheitum. Örlítið austan við kirkjuna stendur viti og hann ætluðum við Dórótea að kanna á laugardagskvöldið. Þá vissum við ekki fyrr en að undir bílinn skreið steinn og undan bílnum lak kolsvört olía með tilheyrandi lykt. Til allrar hamingju vorum við með tjald og því tilvalið að tjalda þar sem bíllinn lá í sárum sínum. Niðri við hafið, í nánd við vita, eyðibýli og kirkjugarð. Hvað gæti verið rómantískara?
Við tókum fullt af myndum í þessum skemmtilega laugardagsbíltúr. Ég hendi þeim hægt og bítandi inn á Flickr. Hér er ein sem okkur finnst voða flott. Hestarnir eru bleikálóttur og vindóttur.