Sit í rútu á leiðinni frá Boston og í áttina að Providence. Gisti í nótt í Cambridge á litlu hóteli sem heitir Irving House, virkilega gott fyrir þá sem vilja skoða Harvard þar sem að það er svo gott sem inn á skólalóðinni. Í kvöld mun ég gista hjá Shep en á morgun er ferðinni heitið til NYC. Skoðaði Harvard og MIT í rigningunni í dag og reyndi að taka einhverjar myndir undir regnhlífinni. Virkilega fallegar skólalóðir og vinalegt umhverfi. Maður fær á tilfinninguna að maður sé dálítið heimskur þegar maður gengur fram hjá öllum þessum gáfumönnum. Síðan kæmi mér ekki á óvart ef flestir “undergraduate” nemarnir séu afskaplega efnaðir.
Super Tuesday var í gær. Fór inn í Boston Public Library þar sem fólk var að kjósa. Fyrir utan stóðu stuðningsmenn Obama og Hillary og veifuðu spjöldum. Hillary vann í Massachusetts sem og stórum ríkjum á borð við NY og CA. Held ég spái því að hún verði næsti forseti Bandaríkjanna. Mér finnst frekar fyndið að Hillary þurfi að nota fornafn sitt en ekki eftirnafn í kosningabaráttunni. Hérna eru fjölmiðlar oft að gera grín að forsetahjónunum og kalla þau meðal annars Billary.
Á mánudaginn skoðaði ég Brown University. Þar tók virkilega indæl kona á móti mér og skipulagði nokkra stutta fundi með prófessorum og framhaldsnemum. Allir voru virkilega vinalegir og umhverfi skólans er fallegt svo að maður gæti vel hugsað sér að fara í Brown. Fyrir þá sem ekki vita þá er Brown í Providence, borg á stærð við Reykjavík, í klukkustundar aksturfjarlægð suður frá Boston. Mánudagurinn endaði svo með colloquium þar sem prófessor frá MIT kom og talaði um hlutahleðslur, þ.e. ekki heiltölu hleðslur. Áður en að fyrirlesturinn byrjaði gafst mér tækifæri til að tala við Leon Cooper Nóbelsverðlaunahafa. Maður verður skjálfhentur í návist svona eðlisfræðispaða og því tókst mér að hella sjóðandi heitu kaffi yfir hönd mina er við byrjuðum að tala saman. Sem betur fer tók Cooper ekki eftir því og það var ekki fyrr en eftir samtalið að mér tókst að huga að eldrauðu handarbakinu. Síðan hófst fyrirlesturinn og það var þá sem ég tók eftir því að kaffið sem ég hellti niður hafði safnast saman í góðum bletti á miðju gólfinu. Aldraður prófessorinn gekk fram og aftur og í hvert skipti sem hann nálgaðist blettinn bjóst ég við því að kallinn myndi renna og brjóta í sér bein á hörðum flísunum. Afar athyglisverður fyrirlestur engu að síður.
Vona að allir hafi átt góða bollu- og sprengidaga,
Kv. Jón Emil