Jæja, ætli það sé ekki vissara að taka saman það helsta áður en að maður gleymir því.
Fyrsta kvöldið urðum við að bíða nokkra tíma á Manhattan eftir því að rútan leggði af stað til Íþöku. Við ákváðum því að labba með ferðatöskurnar okkur um Manhattan svona aðeins til að fá stórborgarfílinginn. Þegar við vorum kominn á Times Square brotnaði af draslið sem maður notar til að draga ferðatöskuna. Þurftum við því að drattast með töskuna alla leið til baka á Port Authority. Boðskapur: Kaupa almennilegar töskur ef ferðin verður erfið.
Í rútunni að japla á sveittum Subway. Þarna komnir ca. 27 tímar. Við rétt misstum af rútunni sem laggði af stað til Íþöku klukkan hálf 9. Urðum því að taka rútu sem laggði af stað kl. 11 frá Port Authority og átti að vera komin til Íþöku kl. 4 um nóttina. Rútan tafðist hins vegar vegna slyddu eða rigningar slash snjókomu eins og einhver orðaði það. Eitthvað tókst okkur að dotta í rútunni en þó ekki meira en einn til tvo tíma. Boðskapur: Ekki fara á Subway ef þú ert að missa af rútunni.
JEG eftir ömurlega vínsmökkun. Við tókum vínsmökkun á svæðinu umhverfis Fingravötnin í NY með vini okkar honum Atilla frá Ungverjalandi. Kíktum á 5 eða 6 vínekrur og einn stað sem framleiddi bjór. Sjálfur gerðist maður "slightly popped" en þó nógu skýr í kollinum til að hafa áhyggjur að ökumanni bíls okkar sem tók ansi hressilega á vínsmökkuninni. Þarna sá maður líka pissfullan bandarískan almúgann af öllum aldri. Sum vín voru ansi góð, einn geðveikur bjór. Þess má geta að Cornell býður upp á kúrs í vínsmökkun sem er opinn öllum, þeir sem ná þeim kúrs (hann er talinn erfiður) geta haldið áfram í bjórsmökkun. Boðskapur: Eftir einn ei aki neinn.
Svakalega flottur foss í nágrenni Íþöku.
Þegar vínsmökkuninni var lokið fórum við að kíkja á hina fjölmörgu fossa sem umlykja Íþökusvæðið. Sjálfur nagaði ég mig í handarbakið yfir því að hafa ekki tekið myndavélina mína með. Þarna verður maður einhvern tímann að fara í ljósmyndaferð. Út um allt eru falleg en jafnfram drungaleg gljúfur og segir sagan að þau séu vöktuð yfir prófatímann. Boðskapur: Ekki fremja sjálfsmorð.
Um kvöldið fórum við út að borða og þaðan á lífið ásamt nokkrum Íslendingum í Cornell. Þarna voru Eyvindur, Ýmir, Matti, Bjarni og Beta, Baldur kom síðan seinna um kvöldið. Okkur Matta fannst eins og við þekktum hvorn annan en gátum samt ekki komið munað hvaðan það var. Djammið var skemmtilegt. Þarna prófaði maður ýmsa nýja bandaríska bjóra og skoðaði sig um í miðbæ Íþöku. Í lokin var gengið um bröttustu brekku sunnan Bröttubrekku. Boðskapur: Teygja á kálfunum.
Á leiðinni frá Íþöku til Princeton ætluðum við að vera sniðug og hoppa út einhvers staðar rétt fyrir utan Manhattan og taka þaðan lest til Princeton. Við fórum sem sagt út í einhverju krummaskuði í þeirri trú að þaðan færi lest til Princeton. Svo var ekki. Sem betur fer gátum við tekið strætó inn á Manhattan og að Port Authority. Þaðan tókum við rútu til Princeton. Boðskapur: Skipuleggja svona áður en að maður fer til útlanda.
Fleiri myndir:
Bandarísku vinir okkar og Eyvindur
Atli HúnakonungurVínsmökkunargengiðFoss í hjarta Íþöku