miðvikudagur, apríl 30, 2008 

Vona

að knattspyrnuliðið þitt verði ekki vafasömum auðkýfingi að bráð.
að stórstjörnunar blómstri þegar þær bætast í hópinn.
að þjálfarinn sé ekki hrokafullur og tapsár hálfviti.
að nýi framherjinn geti staðið í lappirnar.
að liðið þitt vinni verðskuldaða sigra
og viðurkenni ósigur.

Skrifað af Jóni Emil -


þriðjudagur, apríl 29, 2008 

Til hvers fer maður í Princeton?

Til þess að geta svarað erfiðustu spurningunum.

Skrifað af Jóni Emil -


fimmtudagur, apríl 24, 2008 

Meira um norðurljós

Elstu fornu norrænu heimilidirnar um norðurljós má finna í Konungsskuggjá sem kom út í kringum 1250 og var rituð fyrir Magnús lagabæti son Hákonar Hákonarsonar fyrsta konungs Íslands. Ritið er í frásagnarstíl þar sem faðir uppfræðir son sinn.

Þar er sagt frá mönnum sem höfðu séð norðurljós við strendur Grænlands.

Það sem mér finnst ótrúlegt er að ekki séu til eldri vísanir í norðurljós og jafnframt að það séu Norðmenn en ekki Íslendingar sem skuli vera fyrstir okkar norrænu manna að rita um þetta fyrirbæri. Ég hef satt að segja orðið fyrir miklum vonbrigðum með okkar fróðu sagnaritara.

Eitt gæti þó útskýrt þennan skort á íslenskum heimildum. Staðreyndin er nefnilega sú að segulskautin eru á stanslausri hreyfingu og norðurljósaslæðan sem hylur Ísland hvað eftir annað nú á dögum kann að hafa legið fyrir utan landið hér áður fyrr.


Skrifað af Jóni Emil -


miðvikudagur, apríl 16, 2008 

Jæja, vindum okkur í seinni hlutann

Hvar vorum við...

Jú, nú man ég. Á leiðinni til Princeton. Við sem sagt tókum strætó inn á Manhattan og þaðan rútu frá Port Authority til Princeton. Í fyrstu héldum við að við hefðum tekið ranga rútu þar sem við vorum að stoppa í alls konar "dubious" hverfum. Í einu þeirra get ég svarið að ég hafi sé mexíkanska útgáfu Tony Sopranos standa og reykja meðan undirlægjur hans fægðu krómfelgurnar. En já, síðan vorum við komin í gegnum öll þessu vafasömu hverfi og komin á Nassau Street. Einhverja lengstu götu sem ég hef nokkurn tíman keyrt á. Hægt og bítandi breyttist stemmningin úr lower middleclass í upper class. Þarna vorum við sko komin í alvöru bandarískt úthverfi. Stór einbýlishús með hvítum girðingum og garðyrkjumönnum með tilheyrandi aukakvöðum. Fyrr en varði sáum við skilti sem á stóð "Welcome to Princeton". Boðskapur: Garðyrkjumenn hafa það gott.

Snobb, já það var eitt af því fyrsta sem manni datt í hug þegar maður skoðaði sig um í bænum. Hótelið okkar, staðsett í hjarta Princeton, var ansi flott og þ.a.l. hótelherbergið líka. Sum húsanna eru ansi glæsileg, svona í kastalastíl. Þeir sem muna eftir a Beautiful Mind vita hvað ég á við. Síðan eru listaverk á hverjum túnbletti. Kirkjan þeirra er ótrúlega falleg og ég hlakka til að ljósmynda hana í bak og fyrir. Síðan gátu þeir ekki verið minni menn en MIT og er því verið að ljúka við eitt stykki byggingu eftir Frank Gehry. Einhver sagði mér líka að þeir hefðu nýlega byggt sumar af þeim byggingum sem litu út eins og þær væru 200 ára gamlar. Það finnst mér nú bara vera svindl. Við sem sagt vissum ekki alveg hvað okkur ætti að finnast um allan þennan íburð. Hins vegar var ansi róleg stemmning í bænum og maður fékk á tilfinninguna að maður væri virkilega öruggur. Það sama gilti reyndar um Íþöku. Boðskapur: Snobb er gott í hófi.


Sid, fjórir prospectives og velgirtur ég.

Íburðurinn hélt áfram. Eftir skoðunarferðina var okkur komið fyrir á virkilega flottum veitingastað sem framleiddi sinn eigin bjór. Í forrétt fengum við meðal annars krabba, smokkfisk og önd. Í aðalrétt gat maður síðan valið það sem maður vildi. Dórótea fékk sér meiri önd og ég eitt stykki ameríska steik. Ameríkanarnir slengdu þessu í sig ásamt könnu af bjór eins og ekkert væri sjálfsagðra. Það var sérstaklega einn kani (kominn langt inn í doktorsnámið) sem var duglegur að láta okkur Dóróteu líða eins og íslenskum sveitalubbum með hor í nös. Sérstaklega óþægilegt þegar hann spurði, "So Jon, what have you done?" eða eitthvað álíka. Mér leið eins og allt borðið þagnaði meðan ég hugsaði um sniðuga leið til að segja ekki rassgat. Það var samt ósköp gaman að spjalla við hann um skólann. Á borðinu sátu brasilíumaður, kínverji, rússi, indverji, kani og einhverjir fleiri. Boðskapur: Mæli með steikinni.


Dóra fyrir framan aðalbyggingu Princeton háskóla

Daginn eftir fóru kennararnir að kynna sig. Þá fyrst sá maður hvað Princeton er magnaður skóli. Þarna voru manneskjur sem voru ekki bara algjörir snillingar, þær höfðu líka brennandi áhuga á því sem þau voru að gera. Áhuginn, ákafinn og metnaðurinn til að standa sig vel bergmálaði í hverju orði sem þau létu út úr sér. Eftir hinar almennu kynningar fór maður og hitti nokkra prófessora. Þar talaði ég t.d. við indæla konu sem heitir Suzanna Staggs, eðlisfræðing lífs sem er að pæla í eðlisfræði sjónarinnar, tilraunaeðlisfræðing sem virðist geta fattað upp á nýjum og flottum tækjum og verið kominn með starfhæft eintak mánuði síðar (N.B. skrifstofan hans var eins pappírsverksmiðja eftir hvirfilbyl), og að lokum talaði ég við tvo ítalska tilraunaeðlisfræðinga sem eru að leita að hulduefni. Annar þeirra bauð mér til Ítalíu í sumar og hinn bauð okkur Dóróteu út að borða á veitingahúsi sem var eitt sinn heimili Woodrow Wilsons (forseta Princeton háskóla og seinna forseta Bandaríkjanna). Boðskapur: Hafið áhuga á því sem þið eruð að gera eða sleppið því. Ef þú vilt gera eitthvað þá gerirðu það vel.

Um kvöldið hittum við Geir og Völlu. Einu Íslendingana sem við vitum til þess að búi í Princeton. Þau voru ósköp indæl og vonandi hittir maður þau aftur í haust. Var líka gott að fá þeirra álit á bænum.


Geiri og Valla


Jæja, látum þetta nægja frá Princeton.

Eftir Princeton fórum við til Manhattan og komum okkur fyrir á Paramount hotel. Þar var ansi flippuð rokkarastemmning. Rósir á baðherberginu og rúm í 30 cm hæð. Það var þó aðallega staðsetningin sem skipti okkur máli. Í einnar mínútu göngufjarlægð frá Times Square. Við vorum eitthvað að gæla við að gerast menningarleg og kannski kíkja á eins og eina leiksýningu eða kíkja á Ground Zero. Það gerðist ekki og við enduðum á því að eyða öllum okkar tíma í það að labba um Manhattan, borða og versla. Dórótea keypti nýja Ipod nano, ég fékk mér nýja linsu og síðan gerðum við magninnkaup í H&M. Við kíktum líka inn í dótabúðina Toys R Us sem fölnaði í samanburði við hina mögnuðu FAO sem er við suðvesturhorn Central Park. Manhattan er mögnuð borg með of mikið af öllu. Gæti ég aldrei hugsað mér að búa þar í langan tíma, eins og t.d. þau fimm til sex ár sem graduate nám tekur. Boðskapur: Bring cash, bring lots of cash.


Dóra með Empire State í bakgrunni


Fleiri myndir:




Það eru ca. 15 bolir/toppar/peysur í þessum poka (Fyrir Dóróteu)

Skrifað af Jóni Emil -


mánudagur, apríl 14, 2008 

Grótta í kvöld

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, apríl 13, 2008 

Ferðasögur, fyrri hluti

Jæja, ætli það sé ekki vissara að taka saman það helsta áður en að maður gleymir því.

Fyrsta kvöldið urðum við að bíða nokkra tíma á Manhattan eftir því að rútan leggði af stað til Íþöku. Við ákváðum því að labba með ferðatöskurnar okkur um Manhattan svona aðeins til að fá stórborgarfílinginn. Þegar við vorum kominn á Times Square brotnaði af draslið sem maður notar til að draga ferðatöskuna. Þurftum við því að drattast með töskuna alla leið til baka á Port Authority. Boðskapur: Kaupa almennilegar töskur ef ferðin verður erfið.



Í rútunni að japla á sveittum Subway. Þarna komnir ca. 27 tímar.

Við rétt misstum af rútunni sem laggði af stað til Íþöku klukkan hálf 9. Urðum því að taka rútu sem laggði af stað kl. 11 frá Port Authority og átti að vera komin til Íþöku kl. 4 um nóttina. Rútan tafðist hins vegar vegna slyddu eða rigningar slash snjókomu eins og einhver orðaði það. Eitthvað tókst okkur að dotta í rútunni en þó ekki meira en einn til tvo tíma. Boðskapur: Ekki fara á Subway ef þú ert að missa af rútunni.

JEG eftir ömurlega vínsmökkun.

Við tókum vínsmökkun á svæðinu umhverfis Fingravötnin í NY með vini okkar honum Atilla frá Ungverjalandi. Kíktum á 5 eða 6 vínekrur og einn stað sem framleiddi bjór. Sjálfur gerðist maður "slightly popped" en þó nógu skýr í kollinum til að hafa áhyggjur að ökumanni bíls okkar sem tók ansi hressilega á vínsmökkuninni. Þarna sá maður líka pissfullan bandarískan almúgann af öllum aldri. Sum vín voru ansi góð, einn geðveikur bjór. Þess má geta að Cornell býður upp á kúrs í vínsmökkun sem er opinn öllum, þeir sem ná þeim kúrs (hann er talinn erfiður) geta haldið áfram í bjórsmökkun. Boðskapur: Eftir einn ei aki neinn.

Svakalega flottur foss í nágrenni Íþöku.

Þegar vínsmökkuninni var lokið fórum við að kíkja á hina fjölmörgu fossa sem umlykja Íþökusvæðið. Sjálfur nagaði ég mig í handarbakið yfir því að hafa ekki tekið myndavélina mína með. Þarna verður maður einhvern tímann að fara í ljósmyndaferð. Út um allt eru falleg en jafnfram drungaleg gljúfur og segir sagan að þau séu vöktuð yfir prófatímann. Boðskapur: Ekki fremja sjálfsmorð.

Um kvöldið fórum við út að borða og þaðan á lífið ásamt nokkrum Íslendingum í Cornell. Þarna voru Eyvindur, Ýmir, Matti, Bjarni og Beta, Baldur kom síðan seinna um kvöldið. Okkur Matta fannst eins og við þekktum hvorn annan en gátum samt ekki komið munað hvaðan það var. Djammið var skemmtilegt. Þarna prófaði maður ýmsa nýja bandaríska bjóra og skoðaði sig um í miðbæ Íþöku. Í lokin var gengið um bröttustu brekku sunnan Bröttubrekku. Boðskapur: Teygja á kálfunum.

Á leiðinni frá Íþöku til Princeton ætluðum við að vera sniðug og hoppa út einhvers staðar rétt fyrir utan Manhattan og taka þaðan lest til Princeton. Við fórum sem sagt út í einhverju krummaskuði í þeirri trú að þaðan færi lest til Princeton. Svo var ekki. Sem betur fer gátum við tekið strætó inn á Manhattan og að Port Authority. Þaðan tókum við rútu til Princeton. Boðskapur: Skipuleggja svona áður en að maður fer til útlanda.


Fleiri myndir:

Bandarísku vinir okkar og Eyvindur


Atli Húnakonungur


Vínsmökkunargengið


Foss í hjarta Íþöku




Skrifað af Jóni Emil -


föstudagur, apríl 11, 2008 

Erfið fæðing


Það sem gerðist þetta kvöld gefur orðunum erfið fæðing nýja merkingu.

Skrifað af Jóni Emil -


miðvikudagur, apríl 09, 2008 

Þá er það ákveðið

Princeton mun skipa ansi stóran sess í lífi mínu næstu, tjahh segjum fimm ár. Annars er gaman að segja frá því að ég var að gefa út bók á netinu. Síðan Blurb.com er ansi sniðug fyrir þá sem vilja "gefa út" bækur án þess að það kosti þá einhverjar skrilljónir. Þá sem langar í eintak ættu að geta klikkað á myndina hér fyrir neðan.

Vil jafnframt óska Dóróteu til hamingju með afmælið á þessum hundraðasta degi ársins. Síðan er kannski vert að nefna það að færsla þessi er sú þrjúhundraðasta á bloggsíðunni.

Áfram Chelsea!



















Jón Emil Guðmundsson

Skrifað af Jóni Emil -


sunnudagur, apríl 06, 2008 

Sem himins þíns bragandi norðljósa log


Vil þakka Eika og Hlyni fyrir skemmtilega kvöldstund.

Skrifað af Jóni Emil -