Ég minntist á það hérna um daginn að ég ætlaði að kenna krökkunum að drekka opal og brennivín. Drykkirnir vöktu mikla lukku þó að framsetningin hafi hugsanlega þótt meira spennandi heldur en bragðið. Það var mikið um stunur og grettur þegar flöskurnar gengu á milli manna. Margir sögðu að opal bragðaðist eins og hóstasaft, og væri þ.a.l. ógeðslegt, einhver sagði að það minnti á munnskol. Almennt áttu menn einfaldara með að drekka brennivínið heldur en opalið. Það þykir Íslendingum að sjálfsögðu mjög skrýtið. Sjálfur reyndi ég að þykjast hörkutól þegar ég skelli báðum drykkjunum í mig eins og ekkert væri.
Stuttu eftir þessa umræddu vínsmökkun barst mér sending frá elsku mömmu. Var þar að finna sængurver ásamt íslensku nammi. Og viti menn, þar voru m.a. tveir pakkar af rauðum opal. Nammið féll strax í góðan jarðveg. Sérstaklega hjá skrifstofufélaga mínum honum Blake. Hann er gífurlega snjall og hraðleysinn, þ.e.a.s. hann leysir dæmi hratt og örugglega. Honum finnst rauði opalinn ótrúlega góður en er ekki beinlínis sama sinnis um drykkinn.
Nú er ég búinn að biðja mömmu um meira opal. Helst í öllum regnbogans litum. Síðan er planið að dreifa þessu gotterí meðal nemandanna og láta þá gæða sér á þessu í nokkrar vikur. Loks, þegar Dórótea kemur í heimsókn, tjahh eða Svenni og Villi, Þá væri óskandi að maður gæti boðið krökkunum upp á meira opal og athugað hvort að nammiátið geri það að verkum að krakkarnir kunni að meta drykkinn.
Í dag spiluðum við fyrsta leikinn í intramural deildinni. Við unnum 5-3 í leik þar sem markverðirnir áttu smáleik. Tókst báðum að misreikna skopp vegna skots af löngu færi sem skoppaði í jörðina og yfir hausinn á þeim. Seinna markið kom eftir misheppnaða sendingu frá hinum enda vallarins (sendingin var mín). Það var vægast sagt hlægilegt. Það var margt annað hlægilegt í þessum leik. T.d. fannst mér fyndið að hlusta á ameríkanana heimta að rangstöðureglan yrði notuð í leik þar sem 6 spiluðu á móti 6. Enn þá skemmtilegra fannst mér þegar þeir heimtuðu rangstöðu úr innkasti. Annars var gaman að spila fótbolta í góða veðrinu.
Síðan er ég búinn að kaupa mér squash spaða og hokkískauta. Margir af eðlisfræðingunum spila squash enda er sú íþrótt vinsæl meðal nörda, fyrir utan það að hún er virkilega skemmtileg. Það er skautasvell hérna á svæðinu og David og ég reynum að byrja suma daga snemma með því að renna okkur á svellinu.
Skrifstofan okkar heitir the Schmoffice í höfuðið á Michale Mooney, hinum skrifstofufélaganum mínum, sem er gjarnan kallaður Schmooney. Það er mikill gestgangur á skrifstofunni og þykir okkur fátt skemmtilegri en að brjóta heilann yfir erfiðum dæmum. Reyndar sé ég oftast um að brjóta heilann meðan Blake leysir dæmið.
Vona að hlutirnir heima fara á besta veg...