« Home | Hér verður fullyrt » | ARRGGHHH !!!!!! » | Eins og þið vonandi sjáið það er ég eitthvað að fi... » | Vonbrigði » | afleit hugmynd » | Veit einhver hvar þessi var tekin? » | Mæli með því að þið farið á www.kvikmynd.is og hor... » | » | » | upphitun 2 » 

fimmtudagur, mars 02, 2006 

Bla bla bla myndi einhver segja

Mig langar aðeins til að tala um stóriðjuveikina sem dreifist nú á milli landsmanna eins og H5N1 veiran í evrópskum fuglum. Nú eru ríkið og Alcoa búin að skrifa undir samning sem segir að Bakki (svæði rétt fyrir norðan Húsavík) verði kannaður sem hugsanlegur álverksmiðjureitur. Við þessar fréttar kættust margir Húsvíkingar, en að sjálfsögðu sjást ýmis atvinnutækifæri í þessum fyrirhuguðu framkvæmdum. Ég skil vel að fólk á Norðurlandi skuli sjá margt jákvætt í þessum fréttum og telji þær hið besta mál. Það sem ég skil ekki er hugmyndaleysi og heygulsháttur íslenskra stjórnvalda. Eins og ég sé þetta, þá eru ráðamenn einfaldlega að notfæra sér einfaldar leiðir til að hala inn atkvæðum á landsbyggðinni. Þeir eru ánægðir með það sem er að gerast fyrir austan og því hlýtur að vera sniðugt að skella eins og einu álveri fyrir norðan líka. Einhver sagði að maður skyldi ekki leggja öll eggin sín í eina körfu og mér finnst dáldið eins og menn séu að gleyma þessu. Hvað gerist nú ef J. K. Stomson finnur upp nýja og ódýra málmblöndu sem gerir allt sem ál gerir en bara betur. Þá held ég að við Íslendingar myndum pissa í buxurnar. Athugið að ég er ekki að segja að ef samfylkingin væri við völd væri þetta öðruvísi. Persónulega grunar mig að eini flokkurinn sem hefði kjark til að leita annarra leiða við að glæða atvinnulíf íslensku landsbyggðarinnar séu Vinstri Grænir. En hver veit, kannski á þetta eftir að vera hið besta mál fyrir íslenskt atvinnulíf næstu áratugi.
Þetta hugmyndaleysi kemur nú svo sem ekkert alvarlega á óvart. Mér finnst bara leiðinlegt að sjá hve íslensk náttúra á eftir að breytast mikið ef þessi þróun heldur áfram. Nú eru menn að tala um að það gæti þurft fjórar jarðvarmavirkjanir á svæðinu fyrir norðan Mývatn til að sjá þessu fyrirhugaða álveri fyrir orku (Kröfluvirkjun innifalin). Það þyrfti þá líklega að tengja þessar virkjanir allar saman með tilheyrandi leiðslum og háspennulínum. Það finnst mér ljótt. Ég er ekki á móti því að Íslendingar nýti sér þær náttúruauðlindir sem við höfum, nefnilega endurnýtanlega orku, en mér finnst að við verðum að fara varlega í þessum framkvæmdum og gæta hófs. Við eigum að halda áfram því sem mér hefur fundist við vera að gera svo rosalega vel, þ.e. að vera áhugavert og heillandi land, eða bara í einu orði töff. Halda áfram að efla ferðamannaiðnaðinn, í því felst náttúrulega að við verðum að láta hvalveiðar eiga sig því eins og við vitum þá er mikið um að fáfróðir og ótöff ferðamenn líti hvalveiðar hornauga. Æji ég er hættur í bili, þarf að fara á æfingu.

Skrifað af Jóni Emil -