« Home | Prelim prófin » | Fyrsta myndin » | The heat is on! » | Ahhh, » | Bless í bili » | Myndir frá útskriftinni » | Hænsni » | Skemmtilegur hestur » | 64 myndir » | J^2-5M=X » 

föstudagur, september 19, 2008 

Góð athugasemd

Ég er ánægður með athugasemd frá Dyggum lesanda. Nánar til tekið að það sé ekki skylda að photoshoppa hverja einustu mynd. Hún gefur mér tilefni til þess að fjalla um myndvinnslu stafrænna ljósmynda og bera hana saman við vinnslu mynda í myrkraherbergjum.

Án þess þó að vita það þá tel að fréttaljósmyndarar sverji einhvers konar eið þar sem þeir heita því að þeir muni ekki eiga við myndirnar sýnar eftir að þær eru teknar. Þess vegna getum við verið nokkuð viss um að ekki hefur verið átt við myndirnar sem við sjáum í Kringlunni á ári hverju, þ.e. sigurvegara World Press Photo keppninnar. Mér finnst alla vega sjálfsögð sú krafa að fjölmiðlar birti blákaldan raunveruleikann. Enda viljum við geta treyst fjölmiðlum.

Það eru margir sem hugsa fyrst til glanstímaritanna þegar þeir heyra frasann "að photoshoppa". Enda eru líklega allar þær myndir sem að við sjáum í tímaritum á borð við Cosmopolitan og Vogue photoshoppaðar að einhverju leyti. Ég man eftir auglýsingu frá Dove sem sýndi hvernig breyta mætti ósköp venjulegri konu í eitthvað sem líktist súpermódeli með hjálp heppilegrar lýsingar, andlitsfarða og stafrænnar myndvinnslu. Ég man líka eftir því að hafa flett einu af íslensku glanstímaritunum og sjá forsíðumynd sem var greinilega photoshoppuð og sjá síðan nákvæmlega sömu mynd óunna inni í tímaritinu. Það var pínlegt bæði fyrir ljósmyndarann og manneskjuna sem setur upp blaðið en þó ekki síður fyrir módelin. Á forsíðunni mátti sjá mynd af hraustlegum og óaðfinnanlegum fyrirsætum en inni tímaritinu sýndu fyrirsæturnar sitt raunverulega andlit. Svona hlutir finnst mér koma óorði á stafræna myndvinnslu og jafnframt kalla fram almennan misskilning.

Áður en að stafræna myndformið náði yfirhöndinni notuðust ljósmyndarar við myrkraherbergi og framköllunarvökva til þess að framkalla myndirnar sínar. Þetta ættu allir að vita. Það eru færri sem að vita að ljósmyndarar höfðu ýmis brögð til þess að breyta myndum sínum til þess að þær yrðu þeim meira að skapi. Ímyndum okkur t.d. að ég vilji lýsa eða dekkja ákveðinn hluta myndar í photoshop. Til þess nota ég tól sem heita dodge eða burn. Þessi hugtök, þ.e.a.s. dodge og burn, voru einnig notuð í myrkaherbergjunum.

Það að auka skerpu myndarinnar, auka muninn á björtum og dökkum myndfleti (e. contrast) fínstilla liti, allt eru þetta hlutir sem hægt er að eiga við í prentunarferlinu. Með því að velja hentugan pappír, rétt blek o.s.frv.

Í gamla daga urðu ljósmyndarar að prenta út myndirnar sínar ef þeir vildu sýna þær einhverjum. Í dag, með tilkomu tölvuskjáa og internetsins, get ég tekið mynd í Princeton og sýnt fólkinu heima Íslandi á augabragði. Prentunarferlið er því að mörgu leyti orðið úrellt eða óþarft. Þ.a.l. verð ég að ákveða hvort að ég vilji sýna myndina eins og kemur beint úr myndavélinni eða hvort ég vilji fínstilla (eða í sumum tilfellum gjörbreyta henni) eftir minni hentisemi.

Þeir sem líta á ljósmyndun sem einhvers konar listform, eða alla vega leið til þess að skapa hughrif meðal áhorfandans, verða því að ákveða hvar þeir ætla að draga mörkin. Persónulega leyfi ég mér að hnika þessari línu eftir aðstæðum en þá kemur líka oft fyrir að ég horfi til baka og finnist ég hafa ofunnið ákveðnar myndir. Að sama skapi getur verið að ég ofbjóði þeim sem horfa á myndirnar en að sjálfsögðu eru smekkur fólks mjög mismunandi.

Ljósmyndarar eru því í ákveðinni klemmu þegar kemur að hinum stafræna sýningarsal. Til að bæta gráu ofan á svart þá eru tölvuskjáir af öllum stærðum og gerðum og sýna þ.a.l. liti, birtu og andstæður á mismunandi hátt.

Að lokum langar mig til þess að sýna síðustu tvær ljósmyndirnar sem ég setti á Flickr, fyrir og eftir myndvinnslu.



Fyrir


Eftir


Fyrir


Eftir

Jæja, ég er farinn að kenna eðlisfræðingunum hvernig drekka skuli Ópal og Brennivín. Þess má geta að það er líklega það eina sem ég get kennt þessum krökkum...

Skrifað af Jóni Emil -