« Home | draslum braslum » | Kötturinn fer sínar eigin leiðir, » | Kæri Sáli,Mér hefur liðið mjög skringilega undanfa... » | Fótboltameiðsl » | Gula byltingin » | Ya think ya know him » | TÜPP TENN » | atsjú » | námskvíði » | I can't take my eyes of a you » 

sunnudagur, desember 04, 2005 

Höndin


Seint í maí, fyrir nokkrum árum síðan, fóru 6. bekkingar Breiðagerðisskóla í útilegu við Úlfljótsvatn. En eins og flestir vita eru aðalbækistöðvar íslenskra skáta við Úlfljótsvatn. Veðrið var fallegt, heitt og heiðskýrt og allir krakkarnir voru kátir. Allt var eins og það átti að vera. Hrekkjusvínið var fljótt að aðlagast breyttu umhverfi enda var eitt af fyrstu verkum þess að hrinda mér ofan í á er ég hallaði mér fram til að súpa í vatnshléi fótboltaleiks. Já, allt var eins og það átti að vera. Ekki langt frá því þar sem við gistum fundum við einhvers konar vatnsleiktækjagarð með fjöldanum öllum af sniðugum tækjum fyrir hressa krakka. Skátarnir kölluðu þetta vatnasafarí. Mikið ótrúlega var gaman þá. Nú gat maður meira að segja hefnt fyrir það sem hrekkjusvínið hafði gert, án þess að eiga hættu á að vera laminn. En það var ekki bara eintóm hamingja við Úlfljótsvatn. Fullorðna fólkið, sem alltaf þykist vita best, ákvað að nú skildum við fara í ratleik. Þessi ratleikur átti að kenna okkur hvernig skátar hugsuðu. Þrátt fyrir hræðilegan ratleik og meira að segja þó að krakkarnir væru búnir að segja að það einu sem þeir vildu gera væri að leika sér í vatnasafaríinu fannst fullorðna fólkinu að áfram skildi haldið við uppfræðslu barnanna. Skiptu þeir börnunum í hópa og létu einn leiðbeinandi fylgja hverjum hóp. Fyrir hópnum mínum var unglegur maður í hettupeysu. Okkur fannst pínu eins og hann væri enn þá einn af okkur, einn af unga fólkinu, vegna þess hvernig hann bar sig. Hann var með sítt hár, með hendurnar í hettupeysuvösunum og það sást að hann hafði lítinn áhuga á því sem að aðalskátinn sagði. Glaðleg gengum við á eftir unga manninum sem labbaði hægt og rólega að kofa einum ekki skammt frá aðalbækistöðvunum. Inni í kofanum var ekkert annað en kojur og sagði hann að við skildum fá okkur sæti. Þegar ungi maðurinn hafði fengið þögn byrjaði hann að segja okkur sögu. Þessari sögu mun ég líklega aldrei gleyma. Hún var einhvern veginn svona.

Kvöld eitt seint í desember gekk maður af heimili tengdaforeldra sinna með ungabarnið sitt sofandi í örmunum. Maðurinn var orðinn þreyttur eftir tilgangslausar samræður sem hann hafði þurft að halda uppi þar sem eiginkona hans, sem var flugfreyja, hafði tafist í útlöndum. Þegar komið var að því að festa barnið í barnastólnum sagði einhver rödd í hausnum á honum að það tæki því ekki. Barnið væri sofandi og það væri hvort eð er svo stutt heim. Hann gæti lagt barnið í aftursætið og keyrt varlega.
En því miður var hann ekki eini hættulegi ökumaðurinn í umferðinni þetta kvöld. Einhver hálfdrukkinn hálfviti á leið heim af jólahlaðborði sá ekki rauða ljósið er hann keyrði eftir Hringbrautinni og heldur ekki nýja bílinn sem var fyrir framan hann. Keyrði hann því á fullri ferð aftan á bíl föðursins. Barnið, sem ekki hafði verið fest, fór á milli framsætanna í gegnum framrúðuna og endaði í polli ekki langt frá bílnum. Sem betur fer meiddist ungi faðirinn ekki. Hann hljóp út úr bílnum og að barni sínu. Faðirinn uppgötvaði sér til skelfingar að barnið hafði misst aðra höndina en það hafði enn þá veikan andardrátt. Til allrar lukku kunni faðirinn hjálp í viðlögum. Það fyrsta sem hann gerði var að tryggja slysstaðinn. Hann hljóp að skotti nýja bílsins síns, náði í vákant og setti þar sem að vegfarendur sæju hann greinilega. Því næst hljóp hann að barni sínu og lagði það sem eftir var af handlegg barnsins í kaldan pollinn og hægði þar með á blæðingunni. Síðan hringdi hann á hjálp.
Þegar hér var komið við sögu voru nokkrir saklausir krakkar úr Bústaðahverfinu hvítir í framan af skelfingu. Þeir voru ekki undrandi yfir því að ungi maðurinn skildi segja svona hræðilega sögu til að koma boðskap sínum til skila. Þau voru of ung til að velta vöngum yfir því. Þess í stað voru þau undrandi yfir heimsku mannanna í sögunni. Einn saklaus og hæfilega vel upp alinn drengur rétti upp hönd og sagði: “Hvað var maðurinn að hugsa! Fyrst að hann vissi hvernig átti að bregðast þegar slysið varð, af hverju gerði hann þá ekki rétt við barnið sitt? Mér finnst að maðurinn hefði átt að missa höndina en ekki barnið.” Við þetta varð sögumaðurinn reiður og sagði: “Þú hefur engan rétt til að segja svona” Fór hann því næst úr hettupeysu sinni og sáu krakkarnir þá að annar handleggurinn var styttri en hinn. Hrekkjusvínið hló! “Þetta var pabbi minn” sagði hann “og ég er búinn að fyrirgefa honum.”
Saklausi, vel upp aldi drengurinn úr Bústaðahverfinu varð nú jafnvel enn fölari en hann hafði verið. Hann gat með engu móti horft í augun á sögumanninum hvað þá á handlegginn sem vantaði. Það sem eftir lifði þessarar ferðar lá drengurinn í koju sinni meðan hin saklausu börnin úr Bústaðahverfinu léku sér í vatnasafaríinu.

Skrifað af Jóni Emil -