« Home | "All the girls want to get carnal with me because ... » | Kipp í flipp » | Breytingar » | Hrafl » | óformlegt spjall um náttúruna » | náttmör » | "jeg er sku fanden gale mig ekki neinn islandsmann... » | Gærdagurinn » | Gagnrýnandi gagnrýndur » | Zum Wohe » 

laugardagur, janúar 28, 2006 

Ég tralla líka fyrir mig

Einhver sagði að maður þyrfti þrjú líf. Eitt til að lesa, eitt til að lifa og eitt til að skrifa. Hann var víst skáld. Ég held alla vega að það hljóti að vera mjög erfitt að lesa og skrifa á sama tíma. Að lifa og skrifa, það gæti gengið. Einhver annar sagði að hann væri til í að heyra framhald á sögunni um Guðrúnu og Magnús. Ég var ekki alveg viss í fyrstu, einhvern veginn hafði ég ekki hugsað söguna sem framhaldssögu. En það sakar samt ekki að leika sér aðeins með persónurnar. Ég meina, það er ekki eins og þetta séu raunverulegar manneskjur eða neitt svoleiðis. Sáuð þið stjörnurnar í gær? Ég var hársbreidd frá því að keyra út í Þórsmörk og byrja að telja. Jæja, kýlum á þetta.


Gat þetta virkilega verið hún. Hvít prjónahúfa og græn úlpa. Jú, þetta hlaut að vera hún. Magnús leit upp og þakkaði veðurguðunum. Hann man þegar hann sá hana í annað skiptið.

Þau voru að labba sitt í hvora áttina. Hún í grænu úlpunni og með hvítu prjónahúfuna en hann í brúnni ullarpeysu með fallegu mynstri sem amma hans hafði saumað á hann. Það voru þrír ljósastaurar á milli þeirra en Magnús sá að þarna var engin venjulega stelpa á ferð. Þetta var sæta stelpan sem var með honum í heimspekilegum forspjallsvísindum. Hann leit niður á blauta jörðina og hugsaði hvernig hann ætti að gera þetta. Hann fann hvernig hann varð allur stressaður. Hættu þessu, hugsaði Maggi. Hættu að pæla svona mikið í hlutunum og reyndu bara að vera rólegur og yfirvegaður. Magnús var, annað en Guðrún hélt, ekkert öðruvísi en flestir. Hann hafði áhuga á stelpum og var alltaf að horfa í kringum sig. Tveir ljósastaurar. Magnús var að velta því fyrir sér hvort að hann ætti að horfa í augun á henni og brosa eða láta sem hann sæi hana ekki og horfa beint fram. Hann leit upp, hún var enn þá þarna og færðist nær. Magnús labbaði eilítið hægar og virtist djúpt hugsi. Það var eins og hann myndi eftir að hann hefði gleymt einhverju og yrði að snúa við. Hann hélt samt áfram. Einn ljósastaur. Magnús leit upp og á stelpuna, pýrði augun dulítið og brosti svo. Stelpan hafði ekki tekið eftir honum, hún var með eitthvað í eyrunum og átti það hug hennar allan. Magnús horfði áfram á hana vingjarnlegu en jafnframt rannsakandi augnarráði. Mikið ótrúlega var hún falleg. Nú leit hún upp frá tónlistinni og á hann. Hún leit í augun á honum og gerði sér grein fyrir að hann hafði verið að horfa á hana. Hún setti upp svip, sem Maggi átti erfitt með að túlka, og var síðan horfinn úr sjónsviði hans. Shit, hvað var ég að pæla. Magga langaði helst til að runnarnir gleyptu sig.


"Hversu agnarlítið brot af endalaus ómæli tímans fellur ekki í hlut sérhvers okkar! Hve fljótt er það ekki að týnast í eilífðinni!"

Nú sá hann hana og var það ekki í þriðja skiptið, líklega nær því að vera í tuttugasta. Þorrinn var kominn og veðurharkan fylgdi fast á eftir. Það hafði snjóað mikið síðustu daga og margir ökumenn lent í vandræðum. Þarna stóð hún við bílinn sinn sem var fastur í skafli. Athugið að þetta var ekki skaflinn sem leit út eins og hús, hann var kominn og farinn og kominn og farinn. Á allt öðrum stað. Magnús var farinn að gallopa í snjónum, hann ætlaði sko að vera riddaralegur og bjóða henni hjálp. Stelpan var að leita að einhverju í skottinu þegar Magnús kom að henni og sagði sterkri en jafnframt herramannslegri röddu: “Get ég aðstoðað?” Stúlkunni brá svo mikið að hún rak höfuðið upp í skottlokið féll ofan í rúmgott skottið en bar hendurnar fyrir sig. Því miður þurftu hendurnar að lenda ofan á spaða skóflunnar sem hún hafði verið að leita að svo að skaftið skaust upp og í hausinn á henni. Hún féll aftur fyrir sig og lenti ofan í eina slabbpolli Höfuðborgarsvæðisins.

Magnús hélt fyrir andlitið og þakkaði Markúsi Árelíusi kærlega fyrir heilræðið.

Skrifað af Jóni Emil -